Erlent

Kúba leggur mikið af mörkum til baráttunnar við ebólu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hundruðir heilbrigðisstarfsmanna hafa farið frá Kúbu til Vestur-Afríku seinustu misseri.
Hundruðir heilbrigðisstarfsmanna hafa farið frá Kúbu til Vestur-Afríku seinustu misseri. Vísir/Getty
Þrátt fyrir að hafa ekki úr miklum fjármunum að moða og sæta viðskiptabanni af hálfu Bandaríkjanna hefur Kúba sent nokkur hundruð manns til Vestur-Afríku til vinna gegn útbreiðslu ebóluveirunnar og lækna sjúka.

Í umfjöllun New York Times um framlag Kúbu til baráttunnar gegn ebólu segir að landið hafi gert það sem vestrænar þjóðir hafi veigrað sér við: að senda heilbrigðisstarfsfólk á vettvang. Mikil þörf sé fyrir lækna og hjúkrunarfólk í þeim löndum þar sem veiran hefur breiðst út þar sem fjöldi heilbrigðisstarfsmanna hafa dáið úr ebólu.

Alþjóðaheilbrigðisstofnun hefur yfirumsjón með kúbönsku lækna-og hjúkrunarteymunum en ekki liggur fyrir hvernig og hvert stofnunin myndi flytja ef einhverjir munu smitast af veirunni. Ekki er til dæmis víst að heilbrigðisstarfsfólk frá Kúbu muni hafa aðgang að læknamiðstöð sem Bandaríkin hafa sett upp í Monroviu, höfuðborg Líberíu.

Heilbrigðiskerfi Kúbu er með því besta sem þekkist í Rómönsku Ameríku, og þó víðar væri leitað, og koma nemendur víðs vegar að úr heiminum til að læra læknisfræði og hjúkrunarfræði í Havana. Kúba sendi meðal annars fjölda heilbrigðisstarfsfólks til Haítí í kjölfar jarðskjálftans þar árið 2010. Þá bauðst Kúbustjórn til að senda hjálparlið til New Orleans í kjölfar hvirfilbylsins Katrínu árið 2005 en Bandaríkin afþökkuðu boðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×