Viðskipti innlent

KSÍ mun leita réttar síns vegna eftirlíkinga

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Geir Þorsteinsson segir framleiðslu á eftirlíkingum nýrrar landsliðstreyju og notkun á merki KSÍ algjörlega ólöglega og óleyfilega.
Geir Þorsteinsson segir framleiðslu á eftirlíkingum nýrrar landsliðstreyju og notkun á merki KSÍ algjörlega ólöglega og óleyfilega. Vísir/HBG
Knattspyrnusamband Íslands mun leita réttar síns gagnvart seljendum eftirlíkingar af nýju íslensku knattspyrnulandsliðstreyjunni. Formaður KSÍ segir framleiðsluna og notkun á merki KSÍ algjörlega ólöglega og óleyfilega.

„Slík endurgerð er ólögleg og við munum berjast gegn því með kjafti og klóm,“ sagði Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, í samtali við Reykjavík síðdegis. „Þetta er náttúrulega ólögleg framleiðsla og lög vernda vonandi okkur. Við munum verja okkar hagsmuni.“

Sjá einnig: Landsliðstreyjan margfalt ódýrari á AliExpress

Hægt er að kaupa eftirlíkingu af nýju íslensku knattspyrnulandsliðstreyjunni á vefsíðunni aliexpress.com á brotabrot þess sem hún kostar hér heima.

Ódýrustu treyjurnar fyrir fullorðna kosta tæpa fjórtán dollara eða tæpar 2.000 íslenskar krónur. Sé treyjan keypt hér heima kostar hún tæpar 12.000 krónur en óvíst er hvort gæðin á þeim séu sambærileg.

Geir segir að ljóst sé að knattspyrnusambönd og félagslið víða um heim verði fyrir umtalsverðu fjárhagslegu tjóni vegna sölu á eftirlíkingum.

Sjá einnig: Tískurisi æfur yfir nýju treyjunni: Svo ljót að líklega er þetta mannréttindabrot

„Sala á treyjum er umtalsverð tekjulind fyrir framleiðendur og fyrir félagslið. Liðin fá hlutdeild í sölunni þannig að það skiptir knattspyrnusambönd og félagslið í heiminum að spyrna við fótum og uppræta ólöglega framleiðslu,“ segir Geir.

Hér fyrir neðan má hlusta á viðtal Reykjavík síðdegis við Geir Þorsteinsson, formann KSÍ.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×