Viðskipti innlent

KSÍ leitar aðstoðar til að koma í veg fyrir misnotkun vörumerkja

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kvennalandsliðið fagnar hér marki Dagnýjar Brynjarsdóttur á móti Hvíta Rússlandi.
Kvennalandsliðið fagnar hér marki Dagnýjar Brynjarsdóttur á móti Hvíta Rússlandi. Vísir/Vilhelm
Knattspyrnusamband Íslands hefur samið við auglýsingastofuna PIPAR\TBWA um að fyrirtækið gæti hagsmuna KSÍ og sinni vöktun á vörumerkjum sambandsins fram yfir úrslitakeppni Evrópumóts karla í Frakklandi næsta sumar. Borið hefur á því að aðilar ótengdir KSÍ hafi nýtt sér vörumerki sambandsins, þar með töldum landsliðsbúningum, merki sambandsins eða leikmenn klæddir í landsliðsbúning, í auglýsingaskyni.

„Aðdragandinn að þessu hefur verið tiltölulega langur,“ segir Ómar Smárason, leyfis- og markaðsstjóri hjá KSÍ. „Við höfum fundið fyrir þessu í meira mæli síðustu tvö til þrjú ár eða síðan karlalandsliðinu fór að ganga svona vel.“

Ómar Smárason fyrir miðju ásamt Frey Alexanderssyni, landsliðsþjálfara kvenna (t.v.) og goðsögninni Sigurði „Dúllu“ Þórðarsyni, liðsstjóra.Vísir/Daníel
Hann segir í flestum tilfellum séu aðilar að gera þetta óvart og átti sig hreinlega ekki á því að um skrásett vörumerki sé að ræða. KSÍ hafi í gegnum tíðina haft samband við viðkomandi aðila og bent þeim á brot þeirra. Því hefur nánast alltaf verið mætt af skilningi og með afsökunarbeiðni. Auglýsingin hefur svo verið tekin út.

„Í vörumerkjunum eru verðmæti og við erum að taka aðeins formlegra skref til að verja verðmætin fyrir okkur og ekki síður samstarfsaðila okkar. Við teljum þetta vera skref upp á við í fagmennsku og væntumst mikils af samstarfinu.“

Ómar segir KSÍ einfaldlega ekki hafa mannskap til að vakta markaðinn sjálf og því hafi verið leitað til auglýsingastofunnar.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×