Íslenski boltinn

KSÍ greiddi Íslenskum toppfótbolta 2,5 milljónir króna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH, og Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.
Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH, og Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ. vísir/pjetur & anton
FH féll frá málaferlum gegn KSÍ í lok síðasta mánaðar eftir að samkomulag náðist á milli KSÍ og Íslensks toppfótbolta, ÍTF, sem eru samtök félaga í Pepsi-deildinni. FH vildi fá 700 þúsund krónur frá KSÍ þar sem félagið taldi KSÍ hafa farið fram úr sér í útgáfu svokallaðra A-skírteina. Þeir sem hafa slíkt skírteini komast frítt á völlinn.

Í fréttatilkynningu kom eftirfarandi fram.

„Aðilar eru sammála um eftirfarandi:  KSÍ viðukennir að hafa farið framúr reglugerð um útgáfu A-skírteina og biðst afsökunar á að hafa farið fram úr heimildum. FH fellur frá frekari málshöfðun gegn KSÍ vegna málsins."

Vísir heyrði í Ásgeiri Ásgeirssyni, formanni ÍTF, og spurði hann út í málið.

„Meginatriðið var að ná sáttum. Samkomulagið gekk út á að KSÍ greiddi ÍTF 2,5 milljón króna," segir Ásgeir en af hverju þessi háa upphæð fyrst FH vildi aðeins fá 700 þúsund krónur?

„Þetta eru bætur fyrir öll félögin en í því formi að peningurinn rennur allur til ÍTF til að standa straum af sinni vinnu í kringum Pepsi-deildina."

Það fer því enginn peningur í raun til FH eftir allt saman.

„Þetta kemur félögunum öllum til góða. Það er hægt að setja meiri kraft í samtökin núna en við vorum með starfsmann í fullri vinnu áður. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun með að ráða aftur fullan starfskraft. Það er annars fullt af hlutum sem við þurfum að skoða og þá þurfum við að kaupa starfskrafta. Við viljum byggja upp þessi samtök og gera þau sterkari."

Geir vildi lítið tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. „Ég er ánægður með samkomulagið," sagði Geir.


Tengdar fréttir

KSÍ biður FH afsökunar

Sættir hafa náðst í deilu FH og Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, um útgáfu KSÍ á svokölluðum A-skírteinum en fólk með slík skírteini fær frítt á völlinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×