Enski boltinn

KSÍ berst gegn slæmri foreldrahegðun | Sjáðu auglýsinguna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Pjetur
Knattspyrnusamband Íslands kynnti nýtt verkefni sem ætlað er til baráttu gegn neikvæðri hegðun áhorfenda á knattspyrnuleikjum hér á landi.

Átakið heitir „Ekki tapa þér“ og er lýst sem samfélagslegu verkefni. Það miðast að því að útrýma neikvæðri hegðun áhorfenda, ekki síst foreldra, gagnvart leikmönnum og dómurum og þá sérstaklega í yngri flokkum knattspyrnunnar.

„Við vildum vekja fólk til umhugsunar um að hegðun áhorfenda á vellinum skiptir miklu máli. Ekki bara gagnvart iðkendum heildur einnig dómurum,“ sagði Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ, á blaðamannafundi í dag.

„Börnin læra það sem fyrir þeim er haft og því miður er þetta algengt vandamál um allan heim. Þetta eru börn sem eru að leik og þau eiga að geta notið sín án þess að þola slíka hegðun.“

Þórir ítrekaði einnig að neikvæð hegðun áhorfenda bitni oft á störfum ungra dómara. „Mjög margir dómarar hafa á undanförnum árum farið í gegnum okkar fræðslukerfi og útskrifast sem unglingadómarar. Margir hætta eftir stuttan tíma því þeir lenda í aðstæðum sem eru fólki almennt ekki boðlegar.“

„Við vildum því vekja athygli á þessu og hvetja fólk til að taka sig á - svo allir geti notið leiksins,“ sagði Þórir og bætti við að hugmyndin að átakinu hafi komið frá auglýsingaherferð enska knattspyrnusambandsins sem nefnist Respect.

Frekari upplýsingar um átakið má finna á ekkitapa.is, þar á meðal auglýsingu sem var unnin fyrir sjónvarp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×