Erlent

Krufningin á Litvinenko sú hættulegasta í sögunni

Atli Ísleifsson skrifar
Réttarmeinafræðingurinn Nathaniel Cary ræddi við rannsóknarnefndina fyrr í dag.
Réttarmeinafræðingurinn Nathaniel Cary ræddi við rannsóknarnefndina fyrr í dag. Vísir/AP
Krufningin á líki rússneska andófsmannsins Alexander Litvinenko var líklegast sú „hættulegasta sem framkvæmd hefur verið á Vesturlöndum“.

Þetta er mat réttarmeinafræðingsins Nathaniel Cary sem ræddi við sérstaka nefnd sem rannsakar dauða Litvinenko. Cary segir lík Litvinenko hafa verið mjög hættulegt og nauðsynlegt hafi verið að flytja það á öruggan stað vegna krufningarinnar.

Litvinenko lést á sjúkrahúsi í London árið 2006 eftir að eitrað hafði verið fyrir honum með póloni þremur vikum fyrr. Efninu hafði verið komið fyrir tei sem hann hafði drukkið.

Litvinenko var fyrrum starfsmaður rússnesku leyniþjónustunnar og hafði flúið til Bretlands þar sem hann starfaði fyrir bresku leyniþjónustuna og gagnrýndi reglulega stefnu Rússlandsstjórnar á opinberum vettvangi.

Rannsóknarnefndin leitar enn tveggja manna sem grunaðir eru um morðið, þeim Andrei Lugovoi og Dmitry Kovtun. Þeir hafa þó sjálfir neitað aðild að morðinu.

Í frétt BBC kemur fram að Cary hafi greint nefndinni frá því að hann og samstarfsmenn hans hafi klæðst hvítum hlífðarbúnaði, hönskum og sérstökum grímum þar sem súrefni var dælt inn um síu þegar þeir framkvæmdu krufninguna.

Marina, ekkja Litvinenko, segir eiginmann hennar hafa kennt Rússlandsstjórn um að hafa eitrað fyrir sér, en rússnesk stjórnvöld hafa ætíð hafnað því að hafa átt aðild að málinu.


Tengdar fréttir

Litvinenko var njósnari á mála hjá MI6

Í nýrri skýrslu breskra yfirvalda um morðið á fyrrum KGB njósnaranum Alexander Litvinenko kemur fram að Rússinn var starfsmaður bresku leyniþjónustunnar M16.

Hafði glutrað niður öllum auðæfunum

Boris Beresovskí fannst látinn á baðherberginu í stórhýsi sínu í Ascot á sunnanverðu Englandi síðasta laugardag. Lögreglan skýrði frá því á mánudagskvöld að banamein hans hefði verið henging. Ekki vildi hún fullyrða hvort hann hefði svipt sig lífi, en engin merki fundust um átök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×