Handbolti

Króatar unnu fyrsta leikinn á EM eftir vandræði í fyrri hálfleik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ivan Sliskovic, samherji Arons Pálmarssonar hjá Veszprém, fer í gegn í kvöld.
Ivan Sliskovic, samherji Arons Pálmarssonar hjá Veszprém, fer í gegn í kvöld. vísir/valli
Króatía nældi í fyrstu tvö stigin sem í boði voru á EM 2016 í handbolta þegar liðið lagði Hvíta-Rússland, 27-21, í Spodek-höllinni í Katowice.

Þessi lið eru með Íslandi og Noregi í riðli en strákarnir okkar hefja leik klukkan 17.15 og má fylgjast með þeim leik í beinni textalýsingu hér.

Hvít-Rússar komu skemmtilega á óvart í fyrri hálfleik og náðu mest þriggja marka forskoti, 8-5. Þeir áttu auðvelt með að skora á móti mjúkri og hægri vörn Króatíu.

Það hjálpaði líka til að Viaschslau Saldatsenka í marki Hvíta-Rússlands varði allt hvað af tók á meðan króatísku markverðirnir klukkuðu varla boltann. Það snerist við í seinni hálfleik.

Svo virtist sem króatíska liðið væri ekki alveg að nenna þessu í fyrri hálfleik, en í þeim síðari skiptu Króatarnir upp um gír og gengu frá leiknum smám saman.

Króatía var með svona þriggja marka forskot lengst af í fyrri hálfleik en munurinn var orðinn fimm mörk, 26-21, þegar fimm mínútur voru eftir. Hvít-Rússarnir voru þá sprungnir.

Króatar skoruðu eitt mark til viðbótar og unnu á endanum sex marka sigur, 27-21, og eru komnir með tvö stig í B-riðlinum.

Vinstri hornamaðurinn Manuel Strlek skoraði níu mörk úr ellefu skotum fyrir Króatíu en Ivan Stevanvic var öflugur í markinu í seinni hálfleik og varði tíu skot.

Hjá Hvíta-Rússlandi var stórskyttan Siarhei Rutenka markahæst með átta mörk, en hann skoraði sjö af þeim í fyrri hálfleik. Saldatsenka varði fimmtán skot og líkt og Rutenka gerði hann mest í fyrri hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×