Fótbolti

Króatar komu til baka á móti Spáni og unnu riðilinn | Sjáðu mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ivan Perisic fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Ivan Perisic fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Vísir/EPA
Króatía sýndi styrk sinn í kvöld þegar liðið tryggði sér sigur í D-riðli á Evrópumótinu í Frakklandi eftir 2-1 endurkomu sigur á móti Evrópumeisturum Spánar.

Spánverjar höfðu fyrr leikinn leikið fjórtán leiki í röð á EM án þess að tapa og voru með fullt hús eftir tvær fyrstu umferðirnar. Þetta tap þýðir að spænska liðið mætir Ítalíu í sextán liða úrslitunum.  

Spænska liðið yfirspilaði króatíska liðið í upphafi leiks og fékk líka vítaspyrnu í seinni hálfleik til að komast í 2-1. Sergio Ramos lét hinsvegar verja frá sér og Króatar tryggðu sér sigur rétt fyrir leikslok.

Ivan Perisic skoraði sigurmarkið en hann lagði einnig um fyrra markið í lok fyrri hálfleiks og var heldur betur maður kvöldsins hjá Króötum í kvöld ásamt markverðinum Danijel Subasic sem varði víti Ramos.

Spánverjar voru með mikla yfirburði fyrstu 25 mínútur leiksins og komust í 1-0 strax á 7. mínútu þegar Álvaro Morata ýtti boltanum yfir marklínuna.

Það stefndi í öruggan sigur spænska liðsins og Króatarnir litu ekki vel út á upphafsmínútum leiksins.

Spánverjar leyfðu sér hinsvegar að slaka á þegar leið á hálfleikinn og Króatar unnu sig inn í leikinn.

Ivan Rakitic var ótrúlega nálægt því að jafna metin og það var ljóst að Króatarnir voru ekki búnir að gefast upp þrátt fyrir slaka byrjun á leiknum.

Nikola Kalinic tókst síðan að jafna metin á lokamínútu fyrir hálfleiks þegar hann afgreiddi boltann í markið eftir frábæra fyrirgjöf frá Ivan Perisic.

Nikola Kalinic var þarna fyrsti maðurinn í 735 mínútur til að skora hjá spænska liðinu í úrslitakeppni EM.

Spánverjar virtust vera að fá sigurmark á silfurfati þegar David Silva var felldur í teignum og vítaspyrna dæmd.

Sergio Ramos tók vítið en lét Danijel Subasic verja frá sér og staðan var því enn 1-1.

Þetta vítaklúður átti efir að koma í bakið á Spánverjum því Ivan Perisic skoraði sigurmark Króata á 89. mínútu eftir frábæran sprett.



Álvaro Morata kemur spænska liðinu í 1-0 Nikola Kalinic jafnar í 1-1 Spánverjar klikka á víti Sigurmark Ivan Perisic



Fleiri fréttir

Sjá meira


×