Fótbolti

Króatar í stríð við fjölmiðla á HM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Leikmenn króatíska landsliðsins neita að ræða við fjölmiðla á HM í Brasilíu vegna nektarmynda sem hafa verið birtar af þeim.

„Hvernig myndi þér líða ef einhver tæki nektarmynd af þér,“ spurði landsliðsþjálfarinn Niko Kovac á blaðamannafundi sem var haldinn í Praia do Forte.

Fjölmiðlabanninu var komið á eftir að tveir ljósmyndarar náðu myndum af leikmönnum landsliðsins nöktum í sundlaug hótelsins þar sem þeir dvelja.

Ljósmyndararnir lágu í felum og myndirnar birtust svo á fréttasíðum í Króatíu. Meðal þeirra leikmanna sem sáust greinilega á myndunum eru Dejan Lovren, leikmaður Southampton, Vedran Corluka sem er hjá CSKA Moskvu.

„Ég virði skoðun leikmanna minna og ég veit líka að þið fjölmiðlamenn hafið staðið ykkur mjög vel fram að þessu. En þið klúðruðuð þessu með þessu máli. Allur heimurinn hefur séð þessar myndir.“

„Ég er ekki hluti af þessari sögu og því get ég talað. En hvað á ég að gera? Ég get ekki teymt þá á eyrunum og þvingað þá til að tala við fjölmiðla.“

Króatía tapaði fyrir Brasilíu, 3-1, í opnunarleik HM og leikur gegn Kamerún í Manaus á miðvikudag.

Í haust þurfti Niko Kovac að svara fyrir fréttaflutning af bjórdrykkju leikmanna Króatíu hér á landi eftir að Vísir flutti fréttir af því í tengslum við leik liðsins hér á landi.


Tengdar fréttir

Í Króatíu er ekki óvanalegt að fá sér smábjór eftir leiki

Króatískir blaðamenn sýndu fregnum Vísis af drykkju leikmanna króatíska landsliðsins, eftir fyrri leikinn í Reykjavík á föstudaginn, mikinn áhuga. Fréttirnar komu þeim flestum í opna skjöldu á blaðamannafundi með þjálfaranum Niko Kovac síðdegis í gær.

"Ekki snerta sofandi Króata“

Króatískir fjölmiðlar fjalla mikið um frétt Vísis frá því í gær um bjórdrykkju leikmanna króatíska landsliðsins eftir markalausa jafnteflið í Reykjavík á föstudaginn.

Drukku rúmlega 70 bjóra fram á rauða nótt

Leikmenn króatíska landsliðsins virðast ekki hafa miklar áhyggjur af seinni leiknum gegn Íslandi ef marka má hegðun margra þeirra eftir markalausa leikinn á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×