Fótbolti

Króatar hvíla stjörnur sem eru á barmi leikbanns á móti Íslandi

Tómas Þór Þórðarsons í Kabardinka skrifar
Mario Mandzukic verður líklega ekki með.
Mario Mandzukic verður líklega ekki með. vísir/getty
Zlatko Dalic, þjálfari króatíska landsliðsins í fótbolta, ætlar að gera nokkrar breytingar á liði sínu fyrir leikinn á móti Íslandi í lokaumferð D-riðils á HM 2018.

Í gærkvöldi fóru að berast sögusagnir og fréttir frá Króatíu þess efnis að hann ætlaði sér að gera tíu til ellefu breytingar en það virðist ekki rétt.

Króatískir blaðamenn voru mættir á æfingu íslenska liðsins í morgun og þeir sögðu að þjálfarinn hefði talað um að hvíla að minnsta kosti þá sem eru á gulu spjaldi og gætu misst af leiknum í 16 liða úrslitum ef þeir myndu fá gult á móti Íslandi.

Einn þeirra er Ivan Rakitic, leikmaður Barcelona. Ekki amalegt að losna við hann á þriðjudaginn. Mario Mandzukic er einnig einu spjaldi frá banni og verður líklega ekki með sem og Ante Rebic og Sime Vrsaljko.

Þá er miðjumaðurinn öflugi Marcelo Brozovic, sem að skoraði á móti Íslandi í undankeppninni, kominn í bann en Króatía og Serbía eru þau lið sem hafa fengið flest gul spjöld á mótinu eða sex talsins.

Króatísku blaðamennirnir töluðu einnig um að Luka Modric, þrefaldur Evrópumeistari með Real Madrid, fengi að hvíla í Rostov á þriðjudaginn en ef svo fer sleppa strákarnir við að mæta tveimur af bestu miðjumönnum heims.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×