Körfubolti

Kristófer verður líklegast ekki með landsliðinu á EM

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Kristófer Acox í einum af leikjum Íslands á Smáþjóðaleikunum.
Kristófer Acox í einum af leikjum Íslands á Smáþjóðaleikunum. Vísir/getty
Kristófer Acox, leikmaður íslenska landsliðsins í körfuknattleik, verður líklegast ekki með liðinu í lokakeppni Evrópumótsins í Berlín í október. Mun hann líklegast ekki fá leyfi til þess en færi svo að hann yrði með liðinu væri hann ekki með liði sínu í háskólakörfuboltanum í þrjár vikur.

Þetta staðfesti Hannes Sigurbjörn Jónsson, formaður KKÍ, í samtali við Morgunblaðið í dag, en hann taldi mjög ólíklegt að Furman-háskólinn í Bandaríkjunum væri tilbúinn að sleppa Kristóferi í þrjár vikur.

Furman-háskólinn var tilbúinn að leyfa honum að taka þátt í eina viku á meðan riðlakeppninni stæði en íslenska liðið var ekki tilbúið að samþykkja slíka skilmála. Myndi hann missa af öllum undirbúning og æfingarmótum fyrir mót færi svo að hann væri aðeins í viku með liðinu en riðlakeppnin stendur aðeins yfir í fimm daga.

Var Kristófer þrátt fyrir það boðaður í æfingarhóp íslenska landsliðsins á dögunum en það virðist vera útilokað að hann verði með þegar keppnin hefst í september.

„Það er nánast útilokað að Kristófer verði með okkur á EM held ég miðað við samskipti okkar við skólann hans ytra,“ sagði Hannes í samtali við mbl.is.

Kristófer lék sína fyrstu landsleiki fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum fyrr á árinu þar sem hann sýndi og sannaði hvað hann hefur fram á að færa fyrir liðið. Viðurkenndi hann að hann væri ekki bjartsýnn á að taka þátt á mótinu og að auðvitað væri sárt að missa af því þegar Ísland léki í fyrsta sinn í lokakeppni EM.

„Mér finnst ég vera að missa af stóru tækifæri og stórum parti af sögu íslensks körfubolta. Það stingur að geta ekki verið partur af þessum kjarna sem fer til Þýskalands,“ sagði Kristófer á sínum tíma í viðtali við Karfan.is á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×