Körfubolti

Kristófer Acox með þúsund stig fyrir skólann sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristófer hefur spilað vel í vetur.
Kristófer hefur spilað vel í vetur. vísir/getty
Íslenski landsliðsmaðurinn Kristófer Acox setti í gær nýtt persónulegt met í síðasta heimaleik sínum með Furman í bandaríska háskólaboltanum.

Kristófer Acox skoraði 25 stig í leiknum og bætti sinn besta árangur í stigaskori um fjögur stig. Gamla persónulega met Kristófers var síðan 31. desember síðastliðnum þegar hann skoraði 21 stig á móti The Citadel.

Það sem meira er að þessi 25 stig komu honum upp í þúsund stig fyrir Furman-skólann í bandaríska háskólaboltanum.

Furman vann þarna öruggan 78-69 sigur á Wofford skólanum en eins og venjan er á þessum tíma árs þá eiga strákarnir á lokaári í skólanum sviðsljósið í síðasta heimaleik tímabilsins.

Fjölskylda Kristófers var því viðstödd leikinn og sá sinn mann fara heldur betur á kostum í leiknum. Kristófer var með frábæra nýtingu í leiknum en hann hitti úr 12 af 14 skotum sínum auk þess að taka sex fráköst, gefa tvær stoðsendingar, stela einum bolta og verja eitt skot.

Kristófer Acox hefur nú skorað nákvæmlega þúsund stig á fjórum árum í skólanum. Hann skoraði 59 stig fyrsta árið, 224 stig annað árið, 313 stig þriðja árið og er síðan kominn með 404 stig í ár. Þetta gera 1000 stig í 114 leikjum eða 8,8 að meðaltali í leik.

Það þótti vel við hæfi að Kristófer hafi skorað síðustu körfu sína í leiknum með því að troða boltanum í körfuna. Troðslur hans hafa margoft endað í tilþrifapökkum frá leikjum Furman í vetur.

Kristófer Acox er með 13.0 stig og 7,3 fráköst að meðaltali í 31 leik með Furman-skólanum í vetur en hann hefur byrjað alla leiki og er að spila 28,2 mínútur í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×