Golf

Kristján og Karen stigameistarar á Eimskipsmótaröðinni

Kristján Þór Einarsson.
Kristján Þór Einarsson. Vísir/Daníel
Kristján Þór Einarsson úr Golfklúbbnum Kili og Karen Guðnadóttir úr Golfklúbbi Suðurnesja stóðu uppi sem sigurvegarar í Eimskipsmótaröðinni í ár. Þetta var ljóst eftir að síðasta móti ársins,Goðamótinu, lauk á Akureyri í dag.

Kristján Þór hafði þegar tryggt sér stigameistaratitilinn í fyrsta sinn á ferlinum en hann hefur einfaldlega verið óstöðvandi á þessu ári. Er hann ríkjandi Íslandsmeistari í holukeppni ásamt því að hafa unnið Einvígið á Nesinu.

Það var meiri spenna í kvennaflokknum en staða Karenar var óneitanlega góð fyrir mótið. Hún sat í efsta sæti áður en mótið hófst og þær sem voru í sætunum þar á eftir voru fjarverandi á þessu móti. Aðeins Signý Arnórsdóttir gat ógnað forskoti hennar en hún hefur orðið stigameistari þrjú ár í röð.

Kristján Þór lék á fjórum höggum undir pari í dag og í heildina á þremur höggum undir pari sem skaut honum upp fyrir Gísla Sveinbergsson og í fyrsta sætið sem hann hélt út síðustu níu holur mótsins.

Karen hafnaði í öðru sæti á eftir Tinnu Jóhannsdóttir en tryggði sér á sama tíma stigameistaratitilinn en eina konan sem gat ógnað forskoti hennar í dag, Signý, lenti í fjórða sæti.

Er þetta í fyrsta sinn sem báðir þessir kylfingar sigra á Eimskipsmótaröðinni.

Lokastaðan í Goðamótinu var eftirfarandi.

Karlaflokkur:

1.sæti : Kristján Þór Einarsson GKJ 73-70-67 = 210 (-3)

2.sæti : Gísli Sveinbergsson GK 70-71-72 = 213 (par)

3.sæti : Bjarki Pétursson GB 70-75-71 = 216   (+3)

 

Kvennaflokkur:

1.sæti : Tinna Jóhannsdóttir GK 75-75-77 = 227  (+14)

2. sæti : Karen Guðnadóttir GS 75+75+81 = 231  (+18)

3. sæti : Sara Margrét Hinriksdóttir GK 78+77+78 = 233  (+20)






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×