Íslenski boltinn

Kristján Flóki: Kominn tími á að FH vinni tvennuna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristján Flóki í leik með FH gegn Ólsurum.
Kristján Flóki í leik með FH gegn Ólsurum. vísir/fótbolti.net
„Það er frábært að vera kominn heim aftur og ennþá betra að vera kominn heim í uppeldisfélagið,” segir knattspyrnumaðurinn Kristján Flóki Finnbogason í viðtali á heimasíðu FH.

Félagaskipti Kristjáns Flóka frá FCK í Danmörku voru í meira lagi skrautleg því 17. mars tilkynnti Breiðablik að það hefði náð samningum við leikmanninn.

Honum snerist síðar hugur og greindi Vísir frá því að Kristján Flóki hefði aldrei skrifað undir samning við Breiðablik.

Kristján Flóki gerði á endanum þriggja ára samning við uppeldisfélag sitt en þessi tvítugi framherji bað Blika svo afsökunar á öllu í yfirlýsingu frá öllum aðilum.

„Það sem heillaði mig mest er að þetta er auðvitað uppeldisklúbburinn. Liðið stefnir alltaf á það að vinna allt það sem í boði er og fara eins langt og hægt er í Evrópukeppni. Hérna í Kaplakrika eru kunnulegar aðstæður fyrir mig, en þessi aðstæða og þjálfun er sú besta að mínu mati,“ segir Kristján Flóki.

FH-ingar hafa ekki unnið deild eða bikar undanfarin tvö ár og ætla sér stóra hluti í ár enda orðnir atvinnumannafélag eins og formaður knattspyrnudeildar FH sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 á laugardaginn.

„Mér finnst kominn tími til þess að FH vinni tvennuna og ætla ég að gera allt sem í valdi mínu stendur til að hjálpa til við það, en ég mun aldrei gleyma því 2004 þegar við unnum fyrsta titilinn. Velgengnin hefur verið mikil síðan og við ætlum að halda henni gangandi áfram,” segir Kristján Flóki Finnbogason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×