Fótbolti

Kristinn dæmir í Frakklandi á fimmtudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Jakobsson.
Kristinn Jakobsson. Vísir/Daníel
Kristinn Jakobsson hefur fengið flott verkefni hjá UEFA en hann mun dæma leik St. Etienne frá Frakklandi og Quarabag frá Aserbaídsjan í Evrópudeild UEFA en leikið verður í Saint Etienne í Frakklandi á fimmtudaginn. Þetta kemur fram á heimasíðu KSÍ.

Kristni til aðstoðar verða þeir Sigurður Óli Þorleifsson og Gunnar Sverrir Gunnarsson.  Aukaaðstoðardómarar verða Þóroddur Hjaltalín og Þorvaldur Árnason og fjórði dómari verður Gylfi Már Sigurðsson.

Þetta er annar leikurinn sem Kristinn dæmir í Evrópudeild UEFA á þessu tímabili en hann dæmdi einnig leik Celtic og Astra Giurgiu sem fór fram á Celtic Park 23. október síðastliðinn. Kristinn dæmdi einnig leik í forkeppni Evrópudeildarinnar á milli Dinamo Moskvu og Kiryat Shmona.

Kristinn dæmdi þrjá leiki í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í fyrra þar á meðal leik Swansea City og Kuban Krasnodar.

Leikurinn sem Kristinn dæmir á fimmtudaginn er liður í F-riðli og þar er baráttan hörð en Inter Milan er þar efst með átta stig en öll önnur lið í riðlinum eru með fjögur stig þegar tvær umferðir eru eftir.  

Þegar þessi félög mættust í Baku í september lauk leiknum með markalausu jafntefli en St.Etienne hefur gert jafntefli í öllum sínum fjórum leikjum til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×