Erlent

Krísa við gerð norskra fjárlaga

Atli Ísleifsson skrifar
Erna Solberg er forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg er forsætisráðherra Noregs. Vísir/AFP
Erfiðlega gengur fyrir ríkisstjórn Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, að setja saman fjárlög fyrir næsta ár, en viðræður við stuðningsflokka ríkisstjórnarinnar hafa siglt í strand.

Frjálslyndi flokkurinn Venstre gekk frá borði í gær og fyrr í dag gerði svo Kristilegi þjóðarflokkurinn slíkt hið sama.

Kristilegi þjóðarflokkurinn er meðal annars óánægður með umhverfisstefnu ríkisstjórnarinnar og ákvað flokksleiðtoginn Knut Arild að draga sig úr viðræðunum í dag.

Solberg fundaði með leiðtogum stuðningsflokkanna í kvöld, en sá fundur skilaði engum árangri. Forsætisráðherrann verður að ná að minnsta kosti öðrum stuðningsflokkanna aftur að samningaborðinu fyrir 5. desember næstkomandi.

Möguleiki er á að ríkisstjórnin falli, takist henni ekki að ná saman um fjárlög fyrir árið 2017.

Hægriflokkur Solberg og Framfaraflokkurinn mynda saman minnihlutastjórn í Noregi, en hún nýtur stuðnings Venstre og Kristilega þjóðarflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×