Tónlist

Kriki frumsýnir nýtt myndband: „Þetta eru persónulegu lögin mín“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Katrín Helga.
Katrín Helga. vísir/Kristín Pétursdóttir
„Hljómsveitin er frekar ný af nálinni og samanstendur af mér, Sindra Bergssyni og Hjalta Jóni Sverrissyni. Við spilum melódískt, draumkennt 80's skotið popp og textarnir eru allt að því óþægilega einlægir og fjalla mestmegnis um sjálfsvorkunn,“ segir Katrín Helga Andrésdóttir, sem er meðlimur í hljómsveitinni Kriki. Sveitin frumsýnir nýtt myndband á Vísi við lagið Neistar.

„Neistar er annað lagið sem við gefum frá okkur og það er frekar tilraunakennt. Við tókum það upp og mixuðum sjálf og misstum okkur smá í að nota skrítin stúdíótrix. Það er til dæmis hægt á öllu laginu svo það sé í 432 hertz því það á að vera alheimstíðnin samkvæmt einhverjum útreikningum.“

Sunna Axels gerði myndbandið sjálft.

„Hún var fullkomin í verkið því hún hefur svo ríkt hugmyndaflug auk þess sem við erum nánar vinkonur og vinnum vel saman. Myndbandið sýnir konu sem sogast smám saman inn í eggjaheim. Sjaldan eða aldrei hafa egg verið sýnd á jafn fjölbreyttan hátt.“

Katrín Helga er einnig meðlimur í hljómsveitunum Reykjavíkurdætrum og Hljómsveitt.

„Tónlistin okkar er mjög ólík því sem ég er að gera með Reykjavíkurdætrum og Hljómsveitt. Ef við segjum að það séu pólitísku lögin mín, þá eru þetta persónulegu lögin mín.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×