Handbolti

Kretzschmar um IHF-farsann: Snýst bara um peninga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Stefan Kretzschmar, fyrrum landsliðsmaður Þýskalands, segist vera með blendnar tilfinningar gagnvart þátttöku Þýskalands á HM í Katar.

Kretzschmar er sérfræðingur um handbolta hjá Sport1-sjónvarpsstöðinni í Þýskalandi og ritaði í gær pistil á vefsíðu stöðvarinnar.

Þýskaland fékk óvænt þátttökurétt á HM í síðustu viku eftir að Alþjóðahandknattleikssambandið, IHF, ákvað að afturkalla sæti Eyjaálfu og veita Þýskalandi - þó svo að Ísland hafi verið fyrsta varaþjóð hjá Handknattleikssambandi Evrópu, EHF.

„Maður er ánægður þegar þitt land kemst á HM en hins vegar eiga lið sem tapa í undankeppninni ekkert erindi á HM,“ skrifaði Kretzschmar meðal annars.

„Tíðindunum fylgir skrítið bragð. Ég skil að minnsta kosti afstöðu annarra landa og sambanda sem finnst ekki mikið til þessa koma.“

Hann segir ljóst að peningar hafi ráðið för í ákvörðun IHF enda skipti þýski sjónvarpsmarkaðurinn HM gríðarlega miklu máli.

„Þegar maður heyrir af því að handboltinn kunni að vera tekinn af dagskrá Ólympíuleikanna vegna þess að sjónvarpsáhorf á síðasta mót var lítið gerir maður sér grein fyrir hversu mikilvægur þýski markaðurinn er,“ skrifaði Kretzschmar en þýska landsliðið komst ekki á leikana í Lundúnum fyrir tveimur árum.

„Félagsliðin og íþróttasamböndin í stóru íþróttunum - fótbolta, handbolta og körfubolta - eru nú eins og fyrirtæki. Maður getur því dregið þá ályktun að allt snúist þetta um peninga sem er miður.“


Tengdar fréttir

Íþróttaljós: Reglugerðin sem enginn vissi af

Alþjóðahandknattleikssambandið breytti reglunum um hvaða þjóð kæmi til vara ef einhver skyldi ekki fá keppnisleyfi, en lét engan vita. Framkvæmdastjóri evrópska sambandsins lætur ritarann svara spurningum fyrir sig.

Laug EHF að handboltaforystu Íslands?

Framkvæmdastjórn Alþjóðahandknattleikssambandsins leggur til breytingar í þröngum fimm manna hring sem nánast undantekningalaust eru samþykktar. Aum svör Evrópska handknattleikssambandsins til HSÍ.

Svona var reglunum breytt hjá IHF

Varaforseti Handknattleikssambands Evrópu sat fundinn mikilvæga þar sem Þýskalandi var hleypt inn á HM í handbolta.

Ísland á að fara dómstólaleiðina

Ritstjóri þýska vikuritsins Handball Woche telur að handboltaforystan á Íslandi eigi að fara með ákvörðun IHF að hleypa Þýskalandi á HM í Katar fyrir dómstóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×