Innlent

Krefjast gagna frá MAST um öll alvarleg frávik í matvælaframleiðslu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Samtökin vilja fá upplýsingar um alvarleg frávik.
Samtökin vilja fá upplýsingar um alvarleg frávik. Vísir/EPA

Neytendasamtökin og SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu hafa sent Matvælastofnun (MAST) erindi þar sem óskað er eftir gögnum frá stofnuninni um öll alvarleg frávik í innlendri eftirlitsskyldri matvælaframleiðslu sem hún hefur gert athugasemdir við í eftirlitsstörfum sínum.



Er óskað eftir upplýsingum aftur til 1. janúar 2008 en Neytendasamtökin og SVÞ telja að umfjöllun um aðbúnað dýra hjá eggjaframleiðandanum Brúnegg ehf hafi leitt í ljós að MAST hafi alfarið brugðist eftirlitshlutverki sínu.



Eggjaframleiðandinn blekkti neytendur með því að selja egg sín undir fána vistvænnar framleiðslu en ljóst er að hænur í eigu fyrirtækisins hafa búið við afar slæman aðbúnað. MAST gerði athugasemdir við framleiðsluna en lét neytendur ekki vita. Þetta gagnrýna samtökin tvö harðlega.



„Með þögn sinni um málið hefur MAST vegið alvarlega að hagsmunum verslana og neytenda sem í skjóli núverandi fyrirkomulags treysta á faglega starfsemi þeirra aðila sem lögum samkvæmt hefur verið falið eftirlit með matvælaframleiðslu,“ segir í sameiginlegri tilkynningu frá Neytendasamtökunum og SVÞ.



Segja þau að neytendur og verslanir séu í góðri trú um að matvæli standist allar kröfur á meðan engar athugasemdir berist frá eftirlitsaðila. MAST hafi brugðist þessu trausti með því að láta neytendur ekki vita um þær upplýsingar sem stofnunin bjó yfir vegna framleiðslu Brúneggja.



„Að óbreyttu er nú uppi viðvarandi brestur í trausti hagsmunaaðila hvað varðar eftirlit með matvælaframleiðslu, sér í lagi þar sem MAST hefur heimilað afhendingu á matvælum til verslana og neytenda þrátt fyrir að,“ segir í tilkynningunni.



Því fara samtökin þess á leit við MAST að stofnunin veiti þeim aðgang að upplýsingu um öll alvarleg frávik í innlendri matvælaframleiðslu sem gerðar hafa verið athugasemdir við frá 1. janúar 2008.



„Telja Neytendasamtökin og SVÞ mikilvægt að afla þessara gagna enda hefur umfjöllun um eftirlit MAST leitt í ljós að réttur almennings til upplýsinga er verulega takmarkaður er viðkemur matvælaframleiðslu og frávikum frá kröfum sem gera verður til slíkrar framleiðslu.“


Tengdar fréttir

Hafnar alfarið ábyrgð á brúneggjamáli

Kristinn Hugason, fyrrverandi starfsmaður atvinnuvegaráðuneytisins, hafnar því með öllu í viðtali við Fréttablaðið að hann beri á nokkurn hátt ábyrgð á því að málefni fyrirtækisins Brúnegg, sem Kastljós fjallaði um á mánudagskvöld, dagaði uppi í ráðuneytinu án aðgerða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×