Erlent

Krefja Charlie Hebdo skaðabóta vegna skopteikninga

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Eyðileggingin í Amatrice er mikil.
Eyðileggingin í Amatrice er mikil. vísir/EPA
Stjórnvöld í ítalska bænum Amatrice hyggjast leggja fram kæru á hendur franska satírutímaritinu Charlie Hebdo vegna skopteikninga sem birtust í blaðinu í kjölfar mannskæðra jarðskjálfta á svæðinu í síðasta mánuði.

Á myndunum er fórnarlömbum jarðskjálftanna stillt upp sem réttum á borð við pasta og lasagna og er yfirskrift þeirra „jarðskjálftar að hætti Ítala.“

Stjórnvöld í Amatrice segja að um sé að ræða fáránlegar og tilgangslausar myndir sem séu einungis til þess fallnar að móðga hina látnu. Hafa þau því farið fram á að saksóknari leggi fram kæru vegna meiðyrða, og krefjast skaðabóta. Lögmaður bæjarins segir að vinni Ítalir sigur í málinu muni skaðabæturnar renna óskertar til hinna slösuðu.

Tæplega þrjú hundruð manns týndu lífi í jarðskjálftunum í ágúst og er eyðileggingin vegna þeirra gríðarleg, þá einna helst í bænum Amatrice. Rannsókn stendur nú yfir á mögulegri spillingu í úthlutun verksamninga og almennu eftirliti með byggingum á Ítalíu, en sérfræðingar áætla að minnsta kosti sjötíu prósent allra bygginga í landinu séu ekki byggðar til að standa af sér jarðskjálfta.

Charlie Hebdo er reglulega gagnrýnt, og jafnvel fordæmt, vegna teikninga sinna. Nýlega fordæmdu stjórnvöld í Rússlandi tímaritið vegna skopteikninga af mannskæðu flugslysi og þá var það einnig fordæmt fyrir teikningar af þriggja ára dreng sem drukknaði á flótta frá Sýrlandi, svo fátt eitt sé nefnt.


Tengdar fréttir

Rússar fordæma skopmyndir í Charlie Hebdo

Stjórnvöld í Rússlandi hafa fordæmt skopmyndir sem birtust í nýjasta tímariti Charlie Hebdo af flugslysinu á Sinæ skaga um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×