Enski boltinn

Kranjcar bjargaði stigi fyrir QPR | Sjáðu mörkin

Mark Hughes mætti aftur á sinn gamla heimavöll í dag, en lærisveinar Hughes í Stoke gerðu jafntefli við QPR á Loftus Road í Lundúnum.

Hughes stýrði QPR í tæpt ár, frá janúar 2012 til nóvember 2012, en hann sá lærisveina sína í Stoke gera jafntefli.

Stoke komst yfir eftir einungis ellefu mínútna leik. Eftir góða fyrirgjöf frá vinstri skallaði Peter Crouch boltann fyrir markið þar sem Mame Biram Diouf ýtti boltanum yfir línuna.

Þannig virtust leikar ætla standa í hálfleik, en á 43. mínútu jöfnuðu heimamenn. Steven Caulker skallaði boltann að marki Stoke eftir hornspyrnu þar sem Crouch og Charlie Adam voru báðir tilbúnir að hreinsa, en gekk ekki betur en svo að Crouch potaði honum í sitt eigið mark.

Staðan 1-1 í hálfleik. Síðari hálfleikur var ekki nema sex mínútna gamall þegar Stoke komst yfir á ný. Fyrrum Liverpool-mennirnir Crouch og Victor Moses voru þar að verki, en Moses gaf góðan bolta fyrir markið þar sem Crouch var mættur og þrumaði boltanum í netið.

Heimamenn voru ekki að baki dottnir. Þegar einungis mínúta var eftir af venjulegum leiktíma fengu þeir aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig Stoke. Niko Kranjcar gerði sér lítið fyrir og skrúfaði boltann yfir vegginn og í hornið. Lokatölur 2-2.

QPR er í fimmtánda sæti deildarinnar með fjögur stig, en Stoke er tveimur sætum ofar með stigi meira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×