Innlent

Krani féll á nýbyggingu og yfir á planið við Bæjarins bestu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kraninn í Hafnarstrætinu um klukkan korter í tólf í morgun.
Kraninn í Hafnarstrætinu um klukkan korter í tólf í morgun. Vísir/BS
Vegfarendum og starfsfólki í miðbæ Reykjavíkur brá í brún á tólfta tímanum í morgun þegar krani í Hafnarstræti féll á hús sem er í byggingu í götunni. Kraninn féll yfir bygginguna og yfir á planið fyrir framan Bæjarins bestu.

„Við heyrðum skruðninga en sem betur fer var enginn í röðinni,“ segir Hjalti Egilsson sem starfar í miðbæ Reykjavíkur. Hann metur það ótrúlega mildi að enginn hafi verið í röðinni enda séu á þessum tíma dags yfirleitt þrjátíu til fjörutíu manns í röðinni.



 

Kraninn féll á Hafnarstræti 7 og yfir á planið við Bæjarins Bestu.Mynd/Hjalti Egilsson
April Harpa Smáradóttir starfar sömuleiðis í skrifstofubyggingu við hliðina á slysstaðnum. Henni finnst, eins og svo mörgum, ótrúlegt að ekki hafi verið röð á Bæjarins beztu.

„Það er einmitt það sem er svo ótrúlega merkilegt. Það var enginn í krananum og það meiddist enginn í bíl, það lenti enginn bíll undir,“ segir April. Hún lýsir því þannig að það sé eins kraninn hafi fallið saman.

Margt fólk varð vitni að því þegar kraninn féll en sem fyrr segir virðist enginn hafa slasast.

Samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu hafa dælubíll og sjúkrabíll verið sendir á vettvang til öryggis. Engin tilkynning hefur þó borist um slys á fólki.

Timburbúnt í krananum

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hafði nýyfirgefið vettvanginn þegar blaðamaður náði af honum tali.

„Það er með ólíkindum að ekki hafi orðið slys á fólki,“ segir hann í samtali við Vísi. Ekki liggi fyrir hvað hafi orðið til þess að kraninn féll en mögulega hafi einn fótur kranans gefið sig.

Timburbúnt hékk í krananum og féll rétt við pylsuvagninn. 

„Það munaði ekki miklu að þetta hefði lent ofan á vagninum.“

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×