Innlent

Krafan réttlæti fyrir Farkhundu

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Víða um heim hafa verið haldnar minningarathafnir um Farkhundu og nú í Reykjavík.
Víða um heim hafa verið haldnar minningarathafnir um Farkhundu og nú í Reykjavík. Vísir/Vilhelm
Minningarathöfn um Farkhundu, 27 ára gamlan kennaranema, sem var myrt á hrottalegan hátt af stórum hópi manna í Kabúl 19. mars síðastliðinn, var haldin í gær í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Farkhunda var myrt af trúarofstækismönnum fyrir rangar sakir. Hefur morðið vakið sterk viðbrögð í Afganistan og um allan heim.

Í Kabúl brugðu konur á það ráð að bera kistu Farkhundu til grafar og neita karlmönnum um að snerta hana þvert á hefðir Afgana sem leyfa konum að jafnaði ekki að taka þátt í jarðarförum. Á þriðjudaginn var gengu þúsundir saman í Kabúl til þess að krefjast réttlætis fyrir Farkhundu.

Í Ráðhúsi Reykjavíkur mættu gestir með útprentaðar myndir af Farkhundu. Fatima Hussaini las ljóð til minningar um Farkhundu og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hélt stutta tölu. Gestir rituðu nöfn sín á undirskriftarlista til þess að hvetja afgönsk stjórnvöld til þess að taka harðar á ofbeldi gegn konum í Afganistan og tryggja réttlæti fyrir Farkhundu. Í lok athafnarinnar var kertum fleytt á Reykjavíkurtjörn í minningu Farkhundu.

Minningarathafnir og kröfugöngur hafa verið farnar víða annars staðar í heiminum undir yfirskriftinni Réttlæti fyrir Farkhundu. Þá hafa notendur Facebook og Twitter birt greinar og myndir og skipulagt viðburði henni til heiðurs undir kassamerkinu #JusticeForFarkhunda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×