Innlent

Krabbameinsfélagið: Ræður meltingarlækni til að undirbúa ristilkrabbameinsleit

Atli Ísleifsson skrifar
Sunna hóf störf í byrjun apríl og er ráðin til eins árs.
Sunna hóf störf í byrjun apríl og er ráðin til eins árs. Mynd/Krabbameinsfélagið
Krabbameinsfélag Íslands hefur ráðið Sunnu Guðlaugsdóttur meltingarlækni til að leggja grunn að skipulegri leit að ristilkrabbameini og til að undirbúa slíka leit í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld.

Í tilkynningu frá félaginu segir að Sunna hafi hafið störf í byrjun apríl og sé ráðin til eins árs. „Hún lauk námi við læknadeild Háskóla Íslands árið 1989, er sérfræðingur í lyflækningum og meltingarsjúkdómum og lauk doktorsprófi frá Erasmus-háskólanum í Hollandi árið 2002. Sunna hefur starfað í Hollandi og hér á landi, síðast sem sérfræðilæknir á Landspítalanum, og er klínískur lektor við læknadeild Háskóla Íslands.

Í mars 2014 stóð Krabbameinsfélagið ásamt ellefu fag- og sjúklingafélögum að áskorun til heilbrigðisráðherra og alþingismanna um að hefja skipulega leit að ristilkrabbameini.

Tryggingarfélagið Okkar líf veitti félaginu nýlega veglegan styrk til að vinna að undirbúningi slíkrar leitar. Undirbúningur felst m.a. í því að safna margvíslegum gögnum og vinna úr þeim til þess að leggja grunn að árangursríkri hópleit hér á landi. Hefur heilbrigðisráðherra fagnað þessu framtaki og verður þetta verk unnið í samráði við velferðarráðuneytið og Embætti landlæknis.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×