Íslenski boltinn

KR-ingarnir sungu eftir sigurinn á Val í kvöld | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KR-ingar fagna marki Óskar Arnar Haukssonar í fyrri hálfleik.
KR-ingar fagna marki Óskar Arnar Haukssonar í fyrri hálfleik. Vísir/Anton Brink
KR-ingar stóðust pressuna í kvöld og unnu mikilvægan sigur á nágrönnum sínum í Val í stórleik kvöldsins í sjöttu umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta.

KR-liðið var aðeins búið að vinna einn af fyrstu sex leikjum sínum í deild og bikar og datt út fyrir 1. deildarliði Selfoss í bikarnum í síðustu viku.

Það var því komin pressa á liðið ef að Vesturbæingar ætluðu sér að vera með í baráttunni á toppnum. Bjarni Guðjónsson og Guðmundur Benediktsson náðu að stilla sitt lið rétt og ná góðum úrslitum á móti liði sem hafði góð tök á þeim á síðasta tímabili.

KR vann leikinn á endanum 2-1 eftir að hafa komist í 2-0 með mörkum sitthvorum megin við hálfleikinn. Óskar Örn Hauksson og Denis Fazlagic skoruðu mörkin og var Fazlagic að skora í öðrum leiknum í röð.

Valsmenn minnkuðu muninn í lokin og gerðu sig líklega til að jafna en KR-liðið hélt út og fagnaði sigri.

Það var mikið gaman í búningsklefa KR eftir leikinn og KR setti sigursöngva sinna manna inn á Twitter-síðu sína eftir leikinn.

Það syngja KR-ingar:  „Við hötum Fram, við hötum Val en við elskum stórveldið." Það er hægt að sjá sigurgleði KR-liðsins í myndbandinu hér fyrir neðan.

KR er með níu stig eftir sigurinn í kvöld en hann skilaði liðinu upp í sjötta sæti deildarinnar. Valsmenn eru aftur á móti bara í níunda sæti því þeir misstu Víkinga upp fyrir sig í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×