Körfubolti

KR-ingar klikkuðu á titilleik í fyrsta sinn í 27 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, talar við sína menn í gær.
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, talar við sína menn í gær. Vísir/Ernir
KR-ingar náðu ekki að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli í gærkvöldi því Haukar komu í DHL-höllina og minnkuðu muninn í 2-1 í úrslitaeinvígi liðanna í Domino´s deild karla í körfubolta.

Haukar tryggðu sér framlengingu með þriggja stiga körfu Finns Atla Magnússonar á síðustu sekúndu leiksins og unnu síðan framlenginguna 9-7.

Fyrir leikinn í gær voru KR-ingar búnir að vinna sjö leiki í röð þar sem þeir gátu tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn eða alla titilleiki sína frá 1989.

Síðasta tap KR í titilleik á undan þessum var í oddaleik í Keflavík í úrslitaeinvíginu 1989 en Keflvíkingar unnu þá 17 stiga sigur, 89-72, og tryggðu sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil.

Árið eftir hefndu KR-ingar með 3-0 sigri á Keflavík í lokaúrslitunum og unnu þá fyrsta sigurinn af fyrrnefndum sjö þegar Keflvíkingar heimsóttu þá á Seltjarnarnesið 7. apríl 1990.

Síðasti sigurleikurinn af þessum sjö kom síðan í fjórða leiknum á móti Tindastól í fyrra en sá var spilaður í Síkinu á Sauðárkróki. KR vann þann leik og þar með titilinn annað árið í röð.

Fjórði leikur KR og Hauka fer fram á Ásvöllum í Hafnarfirði á fimmtudagskvöldið.



Leikir þar sem KR hefur getað tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn:

1989

89-72 tap fyrir Keflavík í þriðja leik (1-2)

1990

80-73 sigur á Keflavík í þriðja leik (3-0)

2000

83-63 sigur á Grindavík í fjórða leik (3-1)

2007

83-81 sigur á Njarðvík í fjórða leik (3-1)

2009

84-83 sigur á Grindavík í fimmta leik (3-2)

2011

109-95 sigur á Stjörnunni í fjórða leik (3-1)

2014

87-79 sigur á Grindavík í fjórða leik (3-1)

2015

88-81 sigur á Tindastól í fjórða leik (3-1)

2016

79-77 tap fyrir Haukum í þriðja leik (staðan er 2-1)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×