Körfubolti

KR-ingar fá ekki að taka þátt í Evrópukeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij og þjálfarinn Finnur Freyr Stefánsson.
Pavel Ermolinskij og þjálfarinn Finnur Freyr Stefánsson. Vísir/Þórdís
Ekkert verður að því að Íslandsmeistarar KR í körfubolta taki þátt í Evrópukeppni félagsliða á komandi leiktíð en þetta varð ljóst eftir að FIBA Europe, Körfuknattleikssamband Evrópu, breytti fyrirkomulagi keppninnar.

KR-ingar höfðu tilkynnt að þær ætluðu að reyna fyrir sér í Evrópu í fyrsta sinn síðan 2007 en eftir að FIBA Europe fækkaði liðum í keppninni úr 64 í 56 varð ljóst að íslenska liðið fengi ekki þátttökurétt.

KR-ingar áttu möguleika á að koma inn í forkeppni samkvæmt upprunalegu tilhögun keppninnar en yfirmenn hjá Körfuknattleikssambandi Evrópu tóku sér það bessaleyfi að breyta uppsetningu keppninnar.

KR-ingar munu því einbeita sér að mótum hér heima en KR-liðið vann fjóra af fimm titlum í boði í íslenska körfuboltanum á síðustu leiktíð.

Körfuknattleiksdeild KR hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu um málið en þróun mála eru vonbrigði fyrir stórhuga menn í Vesturbænum.



Stjórn körfuboltadeildar KR þykir miður að tilkynna að meistaraflokkur karla mun ekki taka þátt í Evrópumeistaramóti á vegum FIBA.

Körfuboltalið frá Íslandi hefur ekki tekið þátt í móti á vegum FIBA síðan 2007 þegar KR lék á móti Banvit frá Tyrklandi. Einnig breytti FIBA tilhögun keppninnar að því leyti að engin forkeppni verður og var sú ákvörðun tekin eftir að keppnin var auglýst og keppnisgögn send til aðildarfélaga.  Upprunalega áttu 64 lið að taka þátt en var fækkað í 56 lið.  Þar sem Ísland hefur ekki tekið þátt í keppninni undanfarin ár þá er Ísland neðst á styrkleikalistanum og því komst KR ekki inn í keppnina í ár.

F.h. Körfuboltadeildar KR

Guðrún Kristmundsdóttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×