Íslenski boltinn

KR-ingar enn án sigurs á árinu 2017

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá leik KR.
Frá leik KR. Vísir/Vilhelm
KR-liðið hefur aðeins fengið eitt stig út úr fyrstu tveimur leikjum sínum í Reykjavíkurmóti karla í fótbolta.

KR tapaði síðasta 2-1 á móti 1. deildarliði Fylkis en hafði áður gert jafntefli við Víkinga.

Hákon Ingi Jónsson skoraði bæði mörk Fylkismanna með þriggja mínútna millibili í fyrri hálfleik en Guðmundur Andri Tryggvason minnkaði muninn á lokamínútu fyrri hálfleiksins.

KR-ingar tefldu fram sterku liði í leiknum en þar á meðal voru Danirnir Morten Beck, Michael Præst og Kennie Knak Chopart, fyrirliðinn Indriði Sigurðsson, Óskar Örn Hauksson, Finnur Orri Margeirsson og nýju mennirnir Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Garðar Jóhannsson.  

KR-liðið var reyndar ótrúlega nálægt sigri í fyrsta leiknum en liðið var yfir í tæpar 80 mínútur frá því að Aron Bjarki Jósepsson kom liðinu í 1-0 á 14. mínútu. Ívar Örn Jónsson tryggði Víkingi jafntefli með marki á þriðju mínútu í uppbótartíma.  

Framarar byrja árið aftur á móti vel en þeir eru með fullt hús eftir tvo leiki í þessum A-riðli. Fram vann fyrsta Fylki 2-1 og fylgdi því síðan eftir með 2-1 sigri á ÍR-ingum.

Lið KR og Fram mætast einmitt í Egilshöllinni á föstudaginn kemur en KR verður að vinna þann leik ætli Vesturbæingar að komast upp úr riðlinum.

Stig liða í A-riðli Reykjavíkurmóts karla í fótbolta:

1. Fram 6 stig (+2 í markatölu)

2. Víkingur R. 4 stig (+1)

3. Fylkir 4 stig (0)

4. KR 1 stig (-1)

5. ÍR 1 stig (-2)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×