Íslenski boltinn

KR aldrei verið í verri stöðu eftir tólf umferðir í tólf liða deild

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Skúli Jón Friðgeirsson og Stefán Logi Magnússon verjast Alex Frey Hilmarssyni í leik gærkvöldsins.
Skúli Jón Friðgeirsson og Stefán Logi Magnússon verjast Alex Frey Hilmarssyni í leik gærkvöldsins. vísir/hanna
Eftir að tapa ekki í fyrstu tíu heimsóknum sínum á Víkingsvöllinn í Fossvogi allt frá 1988 þurfti KR að lúta í gras í gærkvöldi í lokaleik tólftu umferðar Pepsi-deildar karla gegn Víkingum, 1-0.

Vladimir Tufegdzic skoraði eina mark leiksins í fyrri hálfleik fyrir Víkinga sem annars lágu í vörn nær allan leikinn og horfðu upp á KR-inga klúðra hverju færinu á fætur öðru.

Víkingar eru búnir að vinna tvo leiki í röð og lyftu sér upp í sjötta sæti Pepsi-deildarinnar með sigrinum en liðið er með 18 stig eftir tólf leiki.

KR er aftur á móti í tíunda sæti, einu sæti fyrir ofan fallsvæðið, með þrettán stig eftir tólf umferðir en liðið hefur aldrei verið í verri stöðu eftir tólf umferðir í tólf liða deild.

Versti árangur KR á þessum tímapunkti í tólf liða deild var sumarið 2010 þegar liðið var með 16 stig og markatöluna 21-19. Þá var KR-liðið allavega að skora en nú er það aðeins búið að setja tólf mörk í tólf leikjum en fá á sig þrettán. KR rétti úr kútnum þetta sumarið og hafnaði á endanum í fjórða sæti með 32 stig.

Ári áður en tólf liða deildin var tekin upp var KR aftur á móti í enn meiri vandræðum en liðið var þá aðeins með sjö stig eftir tólf umferðir sumarið 2007. Þá var liðið ekki búið að skora nema níu mörk en fá á sig 21.

Teitur Þórðarson var rekinn sem þjálfari liðsins eftir ellefu umferðir og Logi Ólafsson bjargaði liðinu frá falli. Það endaði með 16 stig en aðeins eitt lið féll þetta sumarið og það var Víkingur.

KR mætir næst botnliði Þróttar eftir Verslunarmannahelgi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×