Innlent

Köttur hámar í sig kanínuhræið

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Kanínuhræið, sem Kristín Ása Einarsdóttir birti mynd af í gærkvöldi á Facebook, er enn í Öskuhlíðinni, þegar þetta er skrifað. Þegar blaðamaður og ljósmyndari Vísis voru á staðnum um klukkan 14:00 í dag var þar mættur köttur og var hann að gæða sér á hræinu. Kötturinn virtist nokkuð vel haldinn. Hann var ekki með ól og haltraði um svæðið; var gæfur og vildi nálgast blaðamann og ljósmyndara milli þess sem hann nartaði í hræið.

Vísir greindi frá því í morgun að Árni Stefán Árnason, lögmaður sem sérhæft hefur sig í réttindum dýra, telji að sá sem hafi rist kanínuna á hol gæti átt yfir höfði sér tveggja ára fangelsi. Árni taldi einsýnt að kanínan hafi verið drepin af mannavöldum og þá rist á hol. Birgir Hauksson veiðimaður hefur hins vegar bent á að vel geti verið að um sjálfdautt dýr sé að ræða sem þá hrafn hafi kroppað í, en hrafninn byrjar ætíð á innyflunum, þá er hann kemst í ferskt hræ.

Haft var samband við Reykjavíkurborg, með það að markmiði að komast að því hvenær hræið yrði fjarlægt. Blaðamanni var gefið samband við meindýraeyði Reykjavíkurborgar. Hann hafði ekkert heyrt af málinu.

Hér að ofan má sjá myndband af því þegar kötturinn borðar hræið. Rétt er að vara viðkvæma við myndbandinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×