Viðskipti innlent

Kostnaður við rannsóknarskýrslur 1,5 milljarðar

Heimir Már Pétursson skrifar
Karl Garðarsson segir kostnaðinn við rannsóknarskýrslur Alþingis kominn út úr öllu korti. Setja verði skýran ramma um rannsóknarnefndir þingsins hvað varðar umfang og kostnað.
Karl Garðarsson segir kostnaðinn við rannsóknarskýrslur Alþingis kominn út úr öllu korti. Setja verði skýran ramma um rannsóknarnefndir þingsins hvað varðar umfang og kostnað. vísir/vilhelm
Fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd segir kostnað við rannsóknarskýrslur Alþingis kominn út úr öllu korti. Kostnaður við sparisjóðaskýrsluna eina sé orðinn svipaður og kostnaðurinn við rannsóknina á hruni bankanna og stöðu Íbúðalánasjóð til samans.

Karl Garðarsson fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd Alþingis segir að kostnaður við rannsóknarskýrslur Alþingis um hrun bankanna, Íbúðalánasjóð og fall sparisjóðanna komi mjög á óvart en hann stefni í einn og hálfan milljarð króna.

„Og það sem vekur sérstaka athygli og við fengum upplýsingar um í fjárlaganefnd í morgun er að það stefnir nú í að skýrslan um sparisjóðina, nýjasta skýrslan, kosti allt að 700 milljónir króna. Það er að segja að kostnaðurinn við þessa einu skýrslu er farinn að nálgast það að vera sami kostnaðurinn og við hinar tvær skýrslurnar um Íbúðalánasjóð og hrun bankanna,“ segir Karl.

Og þar með sé ekki öll sagan sögð því fjárlaganefnd hafi verið upplýst um að kostnaðurinn við sparisjóðaskýrsluna geti orðið enn meiri. Skrá þurfi skýrsluna hjá Þjóðskjalasafni sem geti kostað tugi milljóna króna. Engin skýring hafi komið fram á miklum kostnaði við sparisjóðaskýrsluna en ljóst sé að þar hafi menn farið mjög víða í rannsóknum sínum sem geti skýrt hluta kostnaðarins.

„En það er alveg ljóst að það þarf að skýra þetta betur og ég mun krefjast svara við því strax í upphafi þings. Þessi kostnaður er hreinlega út úr öllu korti. Það liggur alveg ljóst fyrir. Það verður að gera góða grein fyrir því hvernig á þessu stendur,“ segir Karl.

Alþingi sjálft hafi sett af stað rannsókn á þessum kostnaði því ljóst sé að þessi mál geti ekki gengið með þeim hætti sem þau hafi gert.

„Og mjög undarlegt ef Alþingi getur ekki haldið betur á sínum eigin málum. Hvernig eigum við þá að geta haldið á málum þjóðarinnar,“ segir Karl.

Það var í mjög óvenjulegu ástandi sem þessar rannsóknarnefndir voru skipaðar og ekki oft sem það hefur gerst á íslandi áður. Þarf Alþingi kannski að móta fastmótaðri ramm utan um það hvernig staðið er að svona rannsóknum?

„Alþingi þarf að móta mun ákveðnari ramma um þessar nefndir. Auðvitað þarf að rannsaka ýmislegt og rannsóknarnefndir eiga alveg rétt á sér. Alþingi þarf hins vegar að ákveða hvað svona hlutir mega kosta. Það þarf að móta ramma utan um það hvað á að rannsaka nákvæmlega. Ekki hreinlega samþykkja ályktanir sem eru mjög víðtækar og menn geta túlkað í allar áttir,“ segir Karl Garðarsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×