Viðskipti innlent

Kostnaðarsöm starfslok stjórnenda Skeljungs

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Valgeir M. Baldursson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs.
Valgeir M. Baldursson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs.
Breytingar á skipulagi og framkvæmdastjórn Skeljungs á síðasta ári, sem fólu meðal annars í sér að skipta um forstjóra og fækka framkvæmdastjórum um tvo, kostuðu fyrirtækið á annað hundrað milljónir samkvæmt nýbirtum ársreikningi olíufélagsins.

Hendrik Egholm settist í forstjórastól Skeljungs 1. október síðastliðinn í stað Valgeirs M. Baldurssonar. Tilkynnt var um starfslok Valgeirs í byrjun september í fyrra en tæpri viku síðar var tilkynnt um ráðningu hans sem framkvæmdastjóra fjárfestinga og reksturs hjá tryggingafélaginu VÍS.

Í yfirliti yfir laun og hlunnindi stjórnenda Skeljungs kemur fram að laun Valgeirs hafi á síðasta ári numið 103 milljónum króna samanborið við 44 milljónir árið 2016. Skýringin við laun forstjórans fyrrverandi er að gjaldfærð hafi verið áætluð laun og launatengd gjöld vegna starfsloka hans. Miðað við laun forstjórans árið áður nam kostnaður við starfslok hans 59 milljónum, eða sem nemur mánaðarlaunum hans í um 16 mánuði. Gjaldfærður kostnaður vegna starfsloka framkvæmdastjóranna tveggja, miðað við fyrra ár, nam samtals 73 milljónum. Alls nam því kostnaður Skeljungs vegna starfsloka stjórnendanna um 132 milljónum króna.

Fram kemur í ársreikningnum að 97 milljónir króna vegna starfsloka forstjórans fyrrverandi og framkvæmdastjóranna tveggja hafi verið ógreiddar í árslok 2017.

Skeljungur hagnaðist um 1.143 milljónir í fyrra samanborið við 1.262 milljónir árið 2016 en afkoman er sögð lituð af einskiptiskostnaði vegna breytinga í rekstri sem samtals hafi numið 248 milljónum króna á árinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×