Fótbolti

Kostar 34 milljarða að kaupa upp nýja samninginn hans Neymar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar fagnar marki með Barcelona.
Neymar fagnar marki með Barcelona. Vísir/Getty
Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar hefur skrifað undir nýjan fimm ára samning við Barcelona og mun nýi samningurinn hans ná til 30. júní 2021.

Neymar hefur spilað undanfarin þrjú tímabil með Barcelona en hann kom þangað frá brasilíska félaginu Santos.

Á þessum þremur tímabilum með Barcelona hefur Neymar skorað 85 mörk fyrir félagið og unnið alls átta titla.

Eins og venjan er með fótboltamenn á Spáni þá er alltaf klausa í samningi þeirra sem gefur öðrum félögum kost á því að kaupa upp samninginn.

Í tilfelli Neymar eru það engar smá upphæðir. Það er hægt að kaupa nýja samninginn hans fyrir 200 milljónir evra á fyrsta ári, 222 milljónir evra á öðru ári og svo fyrir 250 milljónir evra á þremur síðustu árum hans. 250 milljónir evra eru 34 milljarðar í íslenskum krónum.

Neymar hefur staðið sig vel með Börsungum. Hann skorað 15 mörk á fyrsta tímabilinu, 39 mörk á öðru tímabili sínu  og svo 31 mark á síðasta tímabili. Hann hefur skorað þessi 85 mörk í 140 leikjum.

Neymar hefur unnið spænsku deildina tvisvar, spænska bikarinn tvisvar auk þess að vinna bæði Meistaradeildina og Heimsmeistarakeppni félagsliða.

Næst á dagskrá hjá Neymar er að hjálpa brasilíska landsliðinu að vinna gull á Ólympíuleikunum á heimavelli en leikarnir fara fram í Ríó í ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×