Skoðun

Kosningaréttur heyrnarskertra

Hjörtur H. Jónsson skrifar
Ef þú fengir keppnisrétt í boðhlaupi á ólympíuleikum þá væri það ekki aðeins rétturinn til að mæta til leiks. Að mæta til leiks og komast í mark væri endapunkturinn á löngu ferli þar sem þú hefðir meðal annars verið í aðstöðu til að þjálfa hlaup um langan tíma, afla þér upplýsinga og taka þátt í námskeiðum, fræðast um næringu, mikilvægi hvíldar og fleira sem skiptir máli fyrir hlaup. Þú hefðir tekið þátt í sameiginlegum æfingum með öðrum liðsfélögum þar sem þið hefðuð rökrætt útfærslu hlaupsins, hvernig hlaupurum væri raðað og rætt styrk og veikleika helstu keppinauta. Og þótt sjálfur keppnisdagurinn væri mikilvægastur í flestra huga þá væri hann einungis lokaáfanginn í löngu ferli.

Á sama hátt og keppnisréttur í boðhlaupi er ekki aðeins rétturinn til að mæta til leiks á sjálfan keppnisdaginn, þá er kosningaréttur ekki aðeins rétturinn til að setja kross á blað inni í kjörklefa á kosningadegi. Að setja kross á kjörseðil er endapunktur á löngu ferli, líklega ævilöngu, sem felur meðal annars í sér þjálfun í að taka þátt í samfélaginu, sækja sér menntun og þroska hæfileika sína, taka þátt í fundum og ráðstefnum um stjórnmál, og eiga í rökræðum við fólk, bæði á skipulögðum fundum og dagsdaglega.

Það að veita hópi fólks kosningarétt felur því ekki einungis í sér að því sé tryggður réttur til að mæta á kjördag og setja kross á blað. Kosningaréttur felur óhjákvæmilega í sér að fólki sé gert kleift að taka upplýsta afstöðu, að það geti lært af öðrum um leið og aðrir læra af þeim, sem aftur felur í sér allt ofangreint og fleira.

Í þessu ljósi er hæpið að halda því fram að mikið heyrnarskert og heyrnarlaust fólk hafi fullan kosningarétt. Heyrnarskertu fólki er meðal annars haldið frá þátttöku í stjórnmálaviðburðum og starfi með því að neita því um túlkun (táknmálstúlkun og rittúlkun). Opinberir viðburðir og umræða er yfirleitt hvorki túlkuð né textuð og því óaðgengileg heyrnarskertu og heyrnarlausu fólki. Mörgum er haldið í einangrun þar sem nauðsynleg samskiptatæki, t.d. heyrnartæki, eru afar dýr og þar með óaðgengileg. Svo ekki sé minnst á allar þær brotalamir sem eru í menntun heyrnarskertra og heyrnarlausra.

Vonandi verður það einhverntíma bæði sjálfsagt og venjulegt að heyrnarskert og heyrnarlaust fólk sé jafn virkt í stjórnmálastarfi og annað fólk og sé jafnvel ofarlega á listum, en áður en af því getur orðið er mikið verk óunnið. Ef við viljum taka kosningaréttinn alvarlega þá þurfum við öll að leggjast á árarnar.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×