Skoðun

Kosningaloforðin við aldraða fallin í gjalddaga!

Björgvin Guðmundsson skrifar
Á flokksþingi Framsóknarflokksins fyrir þingkosningar 2013 var eftirfarandi samþykkt: Lífeyrir aldraðra og öryrkja verði hækkaður vegna kjaraskerðingar þeirra á krepputímanum (kjaragliðnunar). Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar 2013 var þetta samþykkt: Ellilífeyrir sé leiðréttur STRAX til samanburðar við þær hækkanir, sem orðið hafa á lægstu launum síðan í ársbyrjun 2009. Þessi kosningaloforð eru alveg skýr. Því var lofað skýrt og ákveðið, að kjaragliðnun krepputímans yrði leiðrétt. Þessi loforð voru endurtekin í kosningabaráttunni.

Hvernig stendur þá á því, að í dag, rúmum tveimur árum frá því þessi kosningaloforð voru gefin, er ekki farið að efna þau? Engu er líkara en, að ríkisstjórnin ætli að svíkja þessi kosningaloforð stjórnarflokkanna. Ríkisstjórnin minnist aldrei á þessi loforð. Ekkert bendir því til þess, að ríkisstjórnin ætli að efna loforðin.

Komu loforðin stjórninni til valda?

Ef til vill hafa kosningaloforðin við aldraða og öryrkja átt stóran þátt í því, að stjórnarflokkarnir komust til valda. Það er a.m.k öruggt, að þessi stóru loforð færðu stjórnarflokkunum mjög mörg atkvæði. Ríkisstjórnin á því aðeins tvo kosti í dag: Að efna kosningaloforðin eða fara frá völdum. Væntanlega velur ríkisstjórnin fyrri kostinn og efnir kosningaloforðin. En það verður að gerast strax. Það þarf að koma fram frumvarp strax um leiðréttingu á kjaragliðnun krepputímans. Komi ríkisstjórnin ekki með slíkt frumvarp er hún umboðslaus og á að fara frá.

Það þýðir ekkert fyrir ríkisstjórnina að svara því, að það sé verið að endurskoða lög um almannatryggingar og þegar endurskoðun ljúki komi leiðréttingar. Það er allt annar hlutur. Þar er um að ræða kerfisbreytingu til framtíðar. En kjaragliðnunin er kjaraskerðing á liðnum tíma, sem þarf að byrja á að leiðrétta og þolir ekki bið. Það þýðir heldur ekkert fyrir ríkisstjórnina að skjóta sér á bak við þetta lítilræði, sem samþykkt var fyrir aldraða og öryrkja á sumarþinginu 2013. Eftir stendur, að ríkisstjórnin hefur ekkert gert í því að leiðrétta kjaragliðnun krepputímans. Þá leiðréttingu verður að framkvæma strax með því að hækka lífeyri um 20%. Síðan þarf að koma til viðbótar hækkun á lífeyri til samræmis við hækkun á launum verkafólks upp í 300 þúsund á mánuði.

Er ríkisstjórnin andvíg eldri borgurum?

Ef ríkisstjórnin ætlar bæði að leggjast gegn því að hækka lífeyri til samræmis við hækkun lægstu launa og svíkja loforðið um að leiðrétta kjaragliðnun krepputímans, er hún greinilega andvíg eldri borgurum og öryrkjum. Fjármálaráðherrann hefur lýst andstöðu sinni við kjarabætur til handa öldruðum og öryrkjum. Hugur hans til lífeyrisþega er ljós. Hver er afstaða annarra ráðherra? Það hefur engin ríkisstjórn lofað eldri borgurum og öryrkjum eins miklum kjarabótum og sú ríkisstjórn, sem nú situr. En ef þessi kosningaloforð verða svikin, eru það einnig stærstu svik ríkisstjórnar við lífeyrisþega.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×