Innlent

Kosning nýs formanns er hafin

Kristján Guy Burges, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar.
Kristján Guy Burges, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar.
Kosning nýs formanns Samfylkingarinnar hófst á hádegi í dag. Fjögur eru í framboði til embættis formanns Samfylkingarinnar. Þau Guðmundur Ari Sigurjónsson, Helgi Hjörvar, Magnús Orri Schram og Oddný Harðardóttir.

Kristján Guy Burges, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, segir að kosningin muni standa yfir fram á næsta föstudag og hún fari að mestu leyti fram rafrænt. Á kjörskrá eru rúmlega 17 þúsund manns.

„Allir þeir sem voru skráðir í Samfylkinguna þann 7. maí, þegar kjörskrá lokaði, eru á kjörskrá,“ segir Kristján. Hann segir ekki hægt að segja til um hvernig þátttaka í kosningunum verður. Það verði að koma í ljós.

„Tæknilega fer hún þannig fram að fólk skráir sig inn á heimasíðu flokksins, xs.is, og þar er stutt á hnapp og kosið. Það opnaði á hádegi í dag.“

Fylgi Samfylkingarinnar hefur hríðfallið undanfarin misseri, ef marka má skoðanakannanir. Síðast í gær birti Fréttablaðið nýja könnun þar sem fylgi flokksins mælist 6,1 prósent.

„Leiðin sem að flokkurinn er að fara í ljósi þeirrar stöðu sem að hefur verið að birtast í skoðanakönnunum upp á síðkastið, er að kalla liðið saman. Að kalla alla flokksmenn saman á landsfund um næstu helgi og kjósa nýja forystu. Þessi kosning sem að hefst í dag er liður í því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×