Innlent

Kortlögðu sjávardvöl laxa fyrstir allra

Svavar Hávarðsson skrifar
Á skurðarborðinu Mælimerki sett inn í laxaseiði áður en því var sleppt í Kiðafellsá – sjö sneru til baka eftir ár í sjó af 600 alls.
Á skurðarborðinu Mælimerki sett inn í laxaseiði áður en því var sleppt í Kiðafellsá – sjö sneru til baka eftir ár í sjó af 600 alls. Mynd/VMST
Tímamótarannsókn Veiðimálastofnunar hefur leitt vísindin ögn nær því að skilja sjávarvist laxa, en aldrei áður hefur tekist að fylgjast með laxi frá því hann gengur til sjávar að vori og aftur í ána sína sumarið eftir.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar, segir að fram til þessa hafi fiskur verið merktur, siglt með hann út á sjó og heimferðin verið kortlögð. Eins hafi seiðum verið fylgt til sjávar sem svo hafa tapast og nýlega hafa menn merkt hoplax og fylgst með honum sumarið áður en hann gengur aftur í ána.

Gönguseiðum var sleppt í Kiðafellsá í Kjós vorin 2005 og 2006 og voru seiðin merkt með mælimerkjum sem komið var fyrir í kviðarholi þeirra. Mælimerkin voru framleidd af íslenska hátæknifyrirtækinu Stjörnu-Odda og mældu hita og dýpi á klukkustundar fresti. Fimm laxar endurheimtust úr sleppingunni 2005 og tveir laxar úr sleppingunni 2006.

Í ljós kom að laxarnir sem fóru úr Kiðafellsá héldu sig í byrjun sjávardvalarinnar fyrir vestan og svo suðvestan við Ísland. Um haustið fóru laxarnir í austur sunnan við Ísland langleiðina til Færeyja en sneru svo við og dvöldu það sem eftir lifði vetrar suðvestur af Íslandi uns þeir héldu af stað heim á leið í Kiðafellsá.

Sigurður segir að komið hafi í ljós að íslenski laxinn dvelji mögulega á ákveðnu belti sem gengur þvert yfir Norður-Atlantshafið frá suðvestri til norðausturs um Ísland. Eins að hann sýni dæguratferli – laxinn heldur sig dýpra á daginn en á nóttinni en það var ekki vitað fyrr en nú.

Seinna árið voru laxarnir sunnar en það fyrra. Þetta sýnir að lax dvelur á slóðum þar sem vænta má mikillar fæðu og er við tiltölulega háan sjávarhita sem nauðsynlegur er til hraðs vaxtar.

„Hann heldur sig í straumskilum þar sem er gríðarleg framleiðsla á svifdýrum og fiski. Hann er að elta þessi skilyrði en ekki sérstaka staði,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að þegar vitað er hvar laxinn heldur sig á hverjum tíma sé hægt að skoða betur umhverfisaðstæður á þeim slóðum og finna skýringar á mismunandi góðum vexti og afföllum laxins milli ára. Þetta sé ekki síst mikilvægt fyrir marga þegar miklar sveiflur eru í veiði í íslenskum ám, en margar kenningar eru uppi um hvað hefur farið úrskeiðis í sjávardvöl laxins, til dæmis áður en lax gekk í ár í fyrrasumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×