Innlent

Kortleggja dópgreni í miðbænum

Snærós Sindradóttir skrifar
Upplýsingar um staðsetningu húsanna og myndir af þeim fengust frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu
Upplýsingar um staðsetningu húsanna og myndir af þeim fengust frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu Fréttablaðið/Garðar Kjartansson
Lögregla hyggst bregðast við brunanum á Grettisgötu fyrr í vikunni með því að skrásetja markvisst yfirgefin hús og dópgreni. Mikil mildi þykir að ekki fór verr en þrír menn voru í húsinu þegar það brann og komust þeir út af sjálfsdáðum.

„Þetta hefur í raun ekki verið ofarlega á baugi hjá okkur og ekki verið litið á þetta sem sérstakt vandamál,“ segir Kristján Ólafur Guðnason aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Hann segir að við brunann hafi lögreglan vaknað upp við vondan draum. Bregðast verði við svo slys verði ekki á fólki.

Kristján Ólafur Guðnason
Markmið lista lögreglunnar er að húsunum verði lokað með tryggilegum hætti og þau gerð innbrotsheld. Kristján segir að haft verði samband við eigendur húsanna en í mörgum tilfellum eru það bankar og fjármálastofnanir.

„Það er verið að reyna að leita leiða núna til að tryggja að svona komi ekki upp aftur,“ segir hann. Kristján gerir ekki ráð fyrir að það muni taka langan tíma að taka upplýsingarnar saman. 

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur tekið saman lista yfir yfirgefin hús um nokkurra ára skeið. Athygli vekur að þeim hefur fækkað ört á síðastliðnum árum. Á lista slökkviliðsins árið 2009 voru 42 hús en árið 2013 voru þau aðeins ellefu talsins. Það er fækkun um tæp 75 prósent. 

Ólafur R. Magnússon deildarstjóri forvarnarsviðs Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
Ólafur R. Magnússon, deildarstjóri á forvarnarsviði Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, segir að ástæðu fækkunarinnar megi rekja til þess að mörg þeirra húsa sem voru yfirgefin hafi verið rifin. Einnig hafi hús verið tekin aftur í notkun.

„Okkar aðkoma að þessu er að tryggja að óviðkomandi fari sér ekki að voða þarna inni. Sum húsin eru án rafmagns. Ef fólk hefur ekki í önnur hús að venda þá getur skapast hætta þegar reynt er að kynda með öðrum hætti.“

Árið 2009 réðst slökkviliðið í átak með það að markmiði að loka yfirgefnum húsum. Eigendum þeirra var þá gerð grein fyrir því að loka yrði húsunum tryggilega ellegar yrði það gert á kostnað þeirra sjálfra. Verkefninu var fylgt stíft eftir og þótti takast vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×