Körfubolti

Körfuboltakvöld: Keflvíkingar ættu að skammast sín

Kristinn Páll Teitsson skrifar
„Keflavík var ekkert að spila neitt sérstaka vörn og þeir létu KR í raun líta út eins og einhverja heimsmeistara,“ sagði Fannar Ólafsson, annar sérfræðinga Körfuboltakvölds, um frammistöðu Keflvíkinga í leik liðsins gegn KR í gærkvöld.

Leiknum lauk með 23 stiga sigri KR en Amin Stevens var eini leikmaður Keflavíkur sem var með lífsmarki í leiknum.

„Keflvíkingar eiga að skammmast sín, KR var að hlæja að þeim í Keflavík. Það er óþolandi að horfa upp á svona aumingjagang og viljaleysi. Ég þekki söguna þarna og upplifunina að það eigi öll lið að vera hrædd við þennan heimavöll, það virðist vera horfið,“ sagði Fannar sem lék á árum áður með báðum liðum.

Kjartan Atli Kjartansson og Jón Halldór Eðvaldsson voru ekkert að skafa af því frekar en Fannar.

„Keflavík er ekki að gera það sem lagt er upp með. Sem dæmi þá drippla þeir boltanum allan liðlangan leikinn eins og þeir séu að vinna einhverja keppni í því. Það var galið að horfa á þetta. Ætlaru að setja þetta á Youtube undir merkinu besti dripplarinn? Þeir eru með allt gjörsamlega lóðbeint niðrum sig, “ sagði Jón ósáttur með spilamennskuna en mikill hiti var í mönnum.

Umræðuna um leikinn má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×