Körfubolti

Körfuboltakvöld: Hlynur Bærings var oft að hrósa honum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Finnur Atli Magnússon var hetja Hauka í gær þegar hann tryggði liðinu framlengingu með því að jafna metin á síðustu sekúndu venjulegs leiktíma.

KR hefði fagnað Íslandsmeistaratitlinum ef Finnur hefði ekki skorað úr þessu lokaskoti en Haukar unnu síðan framlenginguna og því verður fjórði leikurinn á fimmtudagskvöldið.

Strákarnir í Körfuboltakvöldi fengu hetju Hauka í viðtal eftir leikinn og settist Finnur Atli Magnússon í settið við hlið þeirra Kjartans Atla Kjartanssonar, Kristins Geirs Friðrikssonar og Fannars Ólafssonar.

Finnur Atli ræddi við strákana í Körfuboltakvöldinu um verkefnið að dekka hinn öfluga Michael Craion sem var með 23 stig og 15 fráköst í leiknum í gær. Kristinn Jónasson og Guðni Heiðar Valentínusson skiluðu þar báðir mikilvægum mínútum.

Guðni Heiðar Valentínusson átti magnaða innkomu í lok leiks, lokaði á Michael Craion, skoraði tvær frábærar körfur og náði einnig í mikilvæg fráköst.

„Hann er með flogaveiki greyið strákurinn og getur því ekki æft eins mikið og við hinir. Við skiljum það alveg og hann missir af mörgum æfingum en þegar hann er að æfa þá sér maður að hann hefur alveg spilað á móti stórum og sterkum strákum," sagði Finnur Atli um Guðna.

„Ef þið haldið að ég sé að sveifla olnbogum í leikjum þá ættuð þið að sjá æfingarnar hjá okkur. Við lemjum á hvorum öðrum á æfingunum. Hann kann alveg þessar hreyfingar. Hann er kannski ekki í besta forminu en það er rosalega mikilvægt að hafa svona leikmann," sagði Finnur ennfremur um óvænta innkomu Guðna í leikinn í gær.

Guðni hefur reynslu af því að æfa með öflugum leikmönnum og Finnur rifjaði upp veru hans hjá Snæfelli. „Hlynur Bærings var oft að hrósa honum þegar hann gat æft,“ sagði Finnur Atli.

Finnur Atli var því mjög ánægður með stóru strákana í Haukaliðinu og það má sjá allt sem hann sagði um þá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

KR-ingar klikkuðu á titilleik í fyrsta sinn í 27 ár

KR-ingar náðu ekki að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli í gærkvöldi því Haukar komu í DHL-höllina og minnkuðu muninn í 2-1 í úrslitaeinvígi liðanna í Domino´s deild karla í körfubolta.

Sjáðu magnaða flautukörfu Finns | Myndband

Finnur Atli Magnússon tryggði Haukum framlengingu gegn KR í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í kvöld þegar hann setti niður þriggja stiga skot í þann mund sem venjulegur leiktími rann út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×