Innlent

Kópavogskirkja fær bæjarstyrk vegna sérstöðu sinnar

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Gluggar Gerðar Helgadóttur setja sterkan svip á Kópavogskirkju.
Gluggar Gerðar Helgadóttur setja sterkan svip á Kópavogskirkju. Vísir/Gva
Vegna sérstöðu Kópavogskirkju hefur bæjarráð Kópavogs samþykkt að styrkja Kársnessókn vegna viðgerða á kirkjunni.

„Kópavogskirkja stendur á Borgarholti og blasir við öllum sem leggja leið sína um bæinn. Fyrir mörgum er hún tákn bæjarins enda notuð í merki hans. Það er ljóst að ástand hennar og útlit kemur fleirum við en einungis Kársnessókn,“ er bent á í bréfi sóknarnefndar sem sent var bænum eftir fundi með Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra.

„Um er að ræða viðgerðir á steypu, þaki, gluggum og málun, auk annarra smærri atriða innanhúss er meðal annars tengjast lýsingu. Steindir gluggar Gerðar Helgadóttur liggja undir skemmdum,“ segir í bréfi sóknarnefndar.

Gert er ráð fyrir að kostnaður geti numið um 12 milljónum króna. Vegna erfiðrar fjárhagsstöðu getur söfnuðurinn ekki greitt það segir sóknarnefndin.

„Kársnessókn hyggst leita til sóknarbarna og annarra velunnara Kópavogskirkju um aðstoð við að fjármagna verkefnið. Leitað verður eftir beinum fjárframlögum, vinnuframlögum eða öðru peningaígildi sem hjálpar okkur við að ljúka þessu brýna verkefni.

Með vísan í fyrri umræður og fundi leitum við eftir að bæjarstjórn Kópavogs styrki Kársnessókn um framlag til móts við það sem safnast hjá velunnurum kirkjunnar,“ segir sóknarnefndin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×