Lífið

Konur meira áberandi í kvikmyndaiðnaðinum í Svíþjóð

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Alexandra og Silja-Marie hafa komið sér vel fyrir í kvikmyndaiðnaðinum í Svíþjóð.
Alexandra og Silja-Marie hafa komið sér vel fyrir í kvikmyndaiðnaðinum í Svíþjóð. Mynd/Emelie Andersson
Systurnar Silja-Marie og Alexandra Kentsdætur reka sitt eigið framleiðslufyrirtæki sem þær stofnuðu saman í Svíþjóð.

Þær eiga íslenska móður og sænskan föður en þær bjuggu hér á landi til ársins 1994 þegar þær fluttu til Gautaborgar. Framleiðslufyrirtækið sem ber nafnið Kentsdóttir stofnuðu þær fyrir tveimur árum. Fyrst um sinn voru þær með starfsemina í Gautaborg en eftir að þær fluttu til Stokkhólms hefur reksturinn blómstrað.

„Við höfum verið að gera mikið af tónlistarmyndböndum og kynningarmyndböndum fyrir heimasíður hjá fyrirtækjum. Við höfum verið í samstarfi við nokkur plötufyrirtæki sem hafa reglulega samband við okkur og láta okkur fá verkefni. Við erum báðar lærðar og við gerum allt í framleiðsluferlinu, allt frá því að taka upp, leikstýra og klippa,“ segir Silja-Marie.

Stelpurnar eru einu starfsmenn fyrirtækisins og sjá því um öll verkefni og rekstur sjálfar. Þær ráða til sín aðstoðarmenn og myndatökumanneskju í stærri verkefnum þegar þær þurfa að einbeita sér að leikstjórninni og fleiru.

Það er ekki algengt að tvær konur stjórni alfarið framleiðslufyrirtækjum en þær segja að menningin sé önnur í Svíþjóð en á Íslandi.

„Konur fá mun fleiri styrki í Svíþjóð en á Íslandi. Við vitum auðvitað ekki nógu mikið um iðnaðinn á Íslandi en konur eru mun meira áberandi í kvikmyndabransanum í Skandinavíu heldur en hér. Í Svíþjóð er hálfgerður kvóti á styrkjum og það fer meira fyrir konunum. Þrátt fyrir það mætum við oft fordómum. Fólk gerir oft óvart lítið úr okkur og spyr hvort við kunnum að taka upp og klippa alveg sjálfar. Það getur verið mjög niðrandi en við pössum upp á að hafa alltaf femínískt viðhorf í öllu sem við gerum. Þegar við gerum tónlistarmyndbönd þá erum við ekki með fáklæddar stelpur að elta strákana. Við viljum hafa þær venjulegar og heilsteyptar. Ég held að það fylgi því margir kostir að hafa fleiri konur í kvikmyndaiðnaðinum og við teljum það vera eitt af því sem við höfum fram yfir aðra. Fólki finnst gott og þægilegt að vinna með okkur,“ segir Alexandra.

Kentsdætur tóku upp tónlistarmyndband hér á landi í vetur en þær langar að vinna meira á Íslandi.

„Allir í Svíþjóð voru mjög hrifnir af fallega íslenska landslaginu í myndbandinu sem við gerðum. Stundum finnst okkur samt Ísland vera soldið út úr Skandinavíu. Amma okkar býr á Ólafsfirði þannig að við höfum verið að taka upp þar enda mjög fallegur staður. Ég hef líka verið að taka upp í Dúbaí fyrir eitt fyrirtæki og við tókum saman upp tvö tónlistarmyndbönd í Kaliforníu. Við tökum mjög sjaldan upp í stúdíói en okkur finnst það oftast algjör óþarfi,“ segir Silja.

Silja-Marie og Alexandra eru í sumarfríi hér á landi næstu vikuna en þær heimsækja landið að minnsta kosti einu sinni á ári og ná þannig að viðhalda íslenskunni mjög vel. „Við náum ekki oft að fara í frí en þegar það er lítið að gera þá komum við til Íslands. Það er líka gaman að geta haldið í íslenskuna af því við tölum alltaf bara sænsku okkar á milli. Við tölum íslensku vel og getum lesið hana en við getum alls ekki skrifað hana.“


Tengdar fréttir

Kvennakvótinn

Það er ekki að sjá að vanbúnaðurinn sé nokkur. Einn þekktasti og áhrifamesti Íslendingurinn í kvikmyndagerð og sjálfur ráðherra málaflokksins hafa báðir lýst yfir vilja til framkvæmda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×