Erlent

Konur í fyrsta sinn jafn mikið fyrir sopann og karlar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Konur drekka nánast jafn mikið og karlar, samkvæmt rannsókninni.
Konur drekka nánast jafn mikið og karlar, samkvæmt rannsókninni. vísir/getty
Konur drekka nú næstum því jafn mikið og karlar, samkvæmt nýrri alþjóðlegri rannsókn. Það er í fyrsta sinn í sögunni því hingað til hafa karlar verið mun meira fyrir sopann.

Rannsóknin var afar viðamikil en hún náði til fjögurra milljón karla og kvenna sem fædd eru á aldursbilinu 1891 til 2001. Samkvæmt henni drukku karlar áður mun meira en konur og glímdu frekar við áfengistengda sjúkdóma. Í dag er þetta bil á milli kvenna og karla svo gott sem horfið og er breytt staða kynjanna ein breytan sem sögð er skýra þetta, auk þess sem auglýsingar og aukið aðgengi er sagt hafa áhrif.

Um aldamótin 1900 voru karlmenn tvöfalt líklegri til þess að drekka áfengi en konur, og þrefalt líklegri til þess að drekka í óhófi. Þá voru þeir 3,6 sinnum líklegri til þess að þróa með sér áfengistengda sjúkdóma á borð við skorpulifur.

Hjá nýjustu kynslóðinni hins vegar eru karlar 1,1 sinni líklegri til þess að drekka, 1,2 sinnum líklegri til þess að drekka í óhófi og 1,3 sinnum líklegri til þess að þróa með sér drykkjusjúkdóma.

Rannsakendur skoðuðu gögn frá öllum heimshlutum, en bróðurpartur þeirra var þó frá Norður-Ameríku og Evrópu. Í niðurstöðum þeirra segir að áður hafi áfengisdrykkja verið talin karlavandamál, en að nú sé staðan önnur. Hlutverk kynjanna hafi breyst á undanförnum áratugum en að jafnframt hafi aukið aðgengi áhrif. Áfengi sé í auknum mæli markaðssett að konum, þá einkum ungum konum.

Rannsakendurnir segja mikilvægt að fræðsla verði aukin þannig að fólk skilji hættuna sem fylgi áfengisneyslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×