Innlent

Konur dvelja lengur en áður í Kvennaathvarfinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigþrúður Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, kynnti áform um byggingu nýs húsnæðis á fundi Íbúða­lánasjóðs. Byggingin verður fjármögnuð með stofnframlögum.
Sigþrúður Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, kynnti áform um byggingu nýs húsnæðis á fundi Íbúða­lánasjóðs. Byggingin verður fjármögnuð með stofnframlögum. Vísir/Sigtryggur Ari
Áformað er að framkvæmdir við byggingu íbúðarhúsnæðis sem Kvennaathvarfið hyggst reisa hefjist í haust. Sigþrúður Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir að Reykjavíkurborg sé búin að gefa vilyrði fyrir lóðinni, en staðsetningin verði ekki gefin upp. „Við köllum það bara á besta stað í bænum en við ákváðum að halda því fyrir okkur að sinni,“ segir Sigþrúður. Verið sé að vinna í deiliskipulagsmálum.

Stefnt er að því að byggja hús með sextán íbúðum. Í hverri þeirra verða 1 til 3 herbergi. Áætlaður heildarkostnaður við verkið er um 330 milljónir króna.

Sigþrúður hélt erindi um nýja húsið á fundi sem Íbúðalánasjóður hélt um úthlutun stofnframlaga. Húsnæðið verður að hluta til reist með stofnframlögum frá Íbúðalánasjóði, en líka með styrk frá Verkefninu á Allra vörum og Alheims Auði. Heimilinu er ætlað að vera fyrir konur sem þegar hafa dvalið í Kvennaathvarfinu. Á fundi Íbúða­lánasjóðs í gær kom fram að tilgangurinn væri að konurnar búi áfram í öruggu húsnæði sem þær fá á viðráðanlegu verði. Áætlað er að dvalartími hverrar konu í húsinu verði 18 til 24 mánuðir. Í einhverjum tilfellum hugsanlega skemmri.

Sigþrúður segir að sá tími sem konur dvelji í Kvennaathvarfinu hafi lengst undanfarin fimm til sex ár og sé orðinn helmingi lengri en hann var. „Við erum alltaf að sjá fleiri og fleiri konur sem dvelja í hálft ár eða meira. Það er að hluta til vegna innra starfs hjá okkur en að hluta til vegna þess að konur hafa ekki í annað hús að venda. Þær bara komast ekkert út og já, húsnæðismarkaðurinn spilar svo sannarlega inn í,“ segir hún. Um helmingur kvennanna sem dvelji í kvenna­athvarfinu sé erlendur.

„Konur dvelja hjá okkur í allt að ellefu mánuði. Einu sinni var fjölskylda hjá okkur í ellefu mánuði og átti þá líklega svona um 200 sambýliskonur og börn á þeim tíma, sem er kannski ekki æskilegt þegar til langs tíma er litið,“ segir Sigþrúður og bætir við að fjöldinn í húsinu verði vissulega mjög mikill með mjög löngum dvalartíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×