Innlent

Konungleg uppgötvun á Þingvöllum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Gamlar kanthleðslur Konungsvegar komu í ljós er unnið var að lagfæringum vestan við Peningagjá á Þingvöllum.
Gamlar kanthleðslur Konungsvegar komu í ljós er unnið var að lagfæringum vestan við Peningagjá á Þingvöllum. Mynd/Einar Á. E. Sæmundsen.
„Nú þurfum við að endurmeta alla hönnun og vinna úr þessari stöðu,“ segir Einar Á.E. Sæmundsen, fræðslufulltrúi þjóðgarðsins á Þingvöllum, um kanthleðslur úr gamla Konungsveginum sem komið hafa í ljós við Flosagjá og Nikulásargjá.

Einar segir að í vikunni hafi hafist framkvæmdir vegna lagfæringar á veginum og aðkomusvæði vestan megin við brúna yfir Flosagjá, sem yfirleitt er nefnd Peningagjá. Malbik hafi verið flysjað ofan af veginum.

„Við gerðum það mjög varlega vegna þess að hér getur maður alltaf átt von á fornleifum alls staðar. Mjög fljótlega komu hleðslur í ljós, fyrst norðan megin við veginn og síðan sunnan megin þar sem hleðslurnar eru skýrari. Það eru kantarnir á gamla Konungsveginum sem fór þarna yfir,“ segir Einar.

Friðrik VIII ríður hér með liði sínu á Konungsveginum þar sem hann liggur að Flosagjá og þar yfir.Mynd/Þjóðminjasafn Íslands
Konungur á Þingvöllum

Konungsvegur var lagður í tilefni Íslandsheimsóknar Friðriks VIII Danakonungs árið 1907. Vegurinn liggur um Þingvelli að Geysi og Gullfossi og kostaði ríkið 14 prósent af ársútgjöldum.

„Maður átti von á því að einhvern tíma í millitíðinni frá því vegurinn var byggður og þangað til í dag væri búið að ryðja minjum af honum burt en kantarnir af honum eru þarna mjög skýrir undir,“ segir Einar sem kveður fornleifafræðing nú vinna við að hreinsa hleðslurnar og meta.

„Það verður reynt að fara eftir ráðleggingum frá Minjastofnun um það hvernig við getum hannað í kringum þetta. Það kemur kannski í ljós í næstu viku í hvað þetta stefnir. Hugsanlega verður þetta bara enn betra,“ segir fræðslufulltrúinn á Þingvöllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×