Innlent

Konum sem beita heimilisofbeldi boðin meðferð

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Aukin umræða um ofbeldi og afleiðingar þess á börn sem og aukið eftirlit barnaverndar og lögreglu hefur skilað sér í því að fleiri gerendur leita sér hjálpar.
Aukin umræða um ofbeldi og afleiðingar þess á börn sem og aukið eftirlit barnaverndar og lögreglu hefur skilað sér í því að fleiri gerendur leita sér hjálpar. Vísir/VAlli
Síðastliðið vor var farið af stað með meðferðartilboð fyrir konur sem eru gerendur heimilisofbeldis. Meðferðin er í boði hjá átakinu Karlar til ábyrgðar, sem hingað til hefur verið sérhæft meðferðarúrræði fyrir einungis karla sem beita ofbeldi í nánum samböndum.

Tvær konur hafa komið til meðferðar og segir Andrés Ragnarsson, sálfræðingur hjá Körlum til ábyrgðar, að líkamlegt ofbeldi sem konur beiti komi sjaldnar upp á yfirborðið.

„Karlar eru líkamlega sterkari og afleiðingar ofbeldisins verða oft verri. Þar af leiðandi verður ofbeldið sýnilegra og gripið fyrr inn í af barnaverndaryfirvöldum eða lögreglu.“

Þeim sem leita sér meðferðar hjá Körlum til ábyrgðar hefur fjölgað mikið. Á fyrstu átta mánuðum þessa árs hafa fjörutíu nýir karlar sótt meðferð og 25 mál haldið áfram frá fyrra ári. Árið 2013 komu alls 45 nýir karlar í meðferð á öllu árinu og því talið að aukningin verði 20-30 prósent á milli ára.

Andrés Ragnarsson sálfræðingur hjá Körlum til ábyrgðar.fréttablaðið/Auðunn
Andrés segir fjölgunina felast einkum í þremur hópum. Það séu ungir gerendur sem koma eftir eitt ofbeldistilvik og vilja strax taka á sínum vanda. Það séu fleiri tilvísanir frá barnaverndarnefndum, ekki síst frá Suðurnesjunum þar sem mikið átak hefur verið gegn heimilisofbeldi, og í þriðja lagi komi fleiri karlar af eigin hvötum til meðferðar.

„Ég tel að aukningin hjá okkur sé ekki merking um að ofbeldið sé að aukast heldur að aukin umræða um þessi mál og vitundarvakningin skili sér í að fleiri leiti sér hjálpar,“ segir Andrés og bætir við að fólk sé farið að átta sig á áhrifunum sem ofbeldið hefur á börnin á heimilinu.

„Afleiðingar heimilisofbeldis á börn eru mun meiri en fólk hefur gert sér grein fyrir. En nú eru bæði gerendur og makar farnir að grípa fyrr í taumana og bjóða ekki börnum sínum upp á þessar aðstæður.“

Bæði er boðið upp á einstaklingsmeðferð og hópmeðferð fyrir gerendur ofbeldis, og er hópmeðferðin alltaf fullsetin. Einnig er öllum mökum boðið í viðtal eftir að gerandi hefur hafið meðferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×