Erlent

Kona í Hong Kong fangelsuð fyrir að ráðast á lögreglumann með brjóstum sínum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
"Brjóstahaldarinn minn er ógeðslegur en ekki nærri jafn ógeðslegur og niðurstaða dómsins.“
"Brjóstahaldarinn minn er ógeðslegur en ekki nærri jafn ógeðslegur og niðurstaða dómsins.“ vísir/afp
Fjölmargir íbúa Hong Kong hafa að undanförnu flaggað brjóstahölum til að mótmæla því að kona var fangelsuð fyrir að áreita lögregluþjón með brjóstum sínum. BBC segir frá.

Hin þrítuga Ng Lai-ying ásakaði lögreglumanninn um að hafa snert brjóst sín og kærði hann fyrir það. Dómstóll komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að hún hafi snert hann með brjóstum sínum í þeim tilgangi að geta kært hann fyrir verknaðinn. Var hún dæmd til fangelsis í þrjá og hálfan mánuð.

Um tvöhundruð manns komu saman og héldu litla brjóstagöngu fyrir utan höfuðstöðvar lögreglunnar ýmist klæddir sýnilegum brjóstahöldum eða veifandi þeim. Sumir hrópuðu slagorð þess efnis að brjóst séu ekki vopn.

Ng hafði verið þátttakandi í mótmælum þegar atvikið átti sér stað. Til stimpinga kom milli mótmælenda og lögreglunnar. Er lögreglumaður ætlaði að grípa í tösku hennar greip hann óvart í brjóst hennar. Lögreglumaðurinn neitaði því ekki að hafa snert brjóst hennar en vildi meina að það hefði verið henni að kenna.

„Þetta er fáránlegur dómur. Hvernig geta brjóst talist vopn?“ segir einn mótmælenda. Annar sagði að brjóstahaldarinn sem hann klæddist væri ógeðslegur en ekki nærri jafn ógeðslegur og niðurstaða dómstólsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×