Leikjavísir

Kona áreitt fyrir meint störf sín fyrir Bioware

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Úr nýjasta leik BioWare, Mass Effect: Andromeda.
Úr nýjasta leik BioWare, Mass Effect: Andromeda.
Níðst var á fyrrverandi starfsmanni tölvuleikjaframleiðandans BioWare, á Twitter og víðar á internetinu, vegna þess að talið var að hún hefði verið viðriðin gerð andlitshreyfinga persóna í nýjasta leik fyrirtækisins, Mass Effect: Andromeda, sem væntanlegur er á PlayStation 4, PC og Xbox One.

Mikil reiðialda fór yfir internetið á laugardaginn eftir að því var haldið fram að viðkomandi starfsmaður hefði farið fyrir gerð andlitshreyfinga í leiknum, en leikjaspilarar vítt og dreift um heiminn hafa lýst yfir miklum vonbrigðum með andlitshreyfingar persóna, sem eru taldar óraunverulegar og minna á eldri gerðir tölvuleikja, líkt og má sjá hér að neðan. 

Var því haldið fram að starfsmaðurinn, Allie Rose-Marie Leost, hefði enga reynslu af gerð tölvuleikja og hefði einungis fengið starfið vegna frægðar sinnar fyrir að klæða sig upp sem tölvuleikjapersónur. Í kjölfarið fékk Leost fjölda pósta þar sem henni var hótað og var mikil reiði á vefsíðum líkt og Twitter og Reddit.

Varð BioWare að gefa út sérstaka tilkynningu á Twitter, þar sem henni var komið til varnar og þar sagt að það hefði ekki verið satt að hún hefði séð um þennan hluta framleiðslu leiksins. Margir svöruðu þó BioWare og töldu að Leost hefði sjálf tekið það fram á Twitter síðu sinni að hún hefði gegnt því hlutverki. Því er ekki á hreinu, hvað nákvæmlega er satt í þeim efnum. 

Hefur víðlíka reiði innan tölvuleikjaheimsins ekki sést síðan á dögum Gamergate málsins svokallaða, en málið nú er talið endurspegla það mál, þar sem í báðum málum var hlutverk kvenna við gerð tölvuleikja í brennidrepli.

Sjá einnig: Ráðist á konur í tölvuleikjaheiminum

Leost er þó vissulega fyrrverandi starfsmaður fyrirtækisins en ekki er á hreinu við hvað nákvæmlega hún starfaði innan þess.

Hefur meðal annars blaðamaðurinn Brad Glasgow, sem skrifaði mikið um Gamergate hreyfinguna, gagnrýnt árásirnar gegn Leost harðlega og sagt að ekki sé hægt að draga einn einstakling til ábyrgðar fyrir mistök í framleiðslu á tölvuleikjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×