Innlent

Komu í veg fyrir að miklu magni efna yrði smyglað á Litla-Hraun

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögreglumenn sáu menn koma pakka fyrir í bifreið á Selfossi sem var á leið í fangelsið.
Lögreglumenn sáu menn koma pakka fyrir í bifreið á Selfossi sem var á leið í fangelsið. Mynd/E. Ól.
Lögreglan á Suðurlandi og fangaverðir á Litla Hrauni komu í veg fyrir að miklu magni meintra fíkniefna og lyfja væri smyglað inn í fangelsið á föstudag. Þetta kemur fram í Facebook-færslu hjá lögreglunni á Suðurlandi en þar kemur fram að tveir karlmenn voru staðnir að því að koma pakka fyrir í bifreið á Selfossi aðfaranótt síðastliðins föstudag sem lögreglan vissi að væri að fara inn á fangelsissvæðið daginn eftir.

Pakkinn var haldlagður og innihaldið sent í efnagreiningu á rannsóknarstofu en lögreglan á Selfossi segir ekki vitað á þessari stundu hvaða efni er um ræða. Á föstudag var kona handtekin á Litla Hrauni sem ætlaði sér að heimsækja fanga. Var hún grunuð um að ætla að smygla ólöglegu efni inn í fangelsið en við nánari rannsókn kom í ljós að hún var með töflur innvortis.

Ekki er vitað hvaða töflur það voru en úr því verður skorið á rannsóknarstofu. Lögreglan á Suðurlandi segir málin tvö ótengd. Lögreglan á Suðurlandi hafði afskipti af ökumanni hópferðabifreiðar skömmu fyrir hádegi á fimmtudag þar sem hann var á leið austur Suðurlandsveg við Lögberg.

Í samræðum við ökumanninn fundu lögreglumenn áfengisþef leggja frá vitum hans. Við forskoðun mældist áfengi í blóði hans meira en góðu hófi gegndi. Ökumaðurinn var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða á staðnum. Í bifreiðinni voru 18 farþegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×