Tónlist

Kominn með eigin klisjur á köflum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Mugison er spenntur fyrir vertíiðinni en hann er komið með eigin litlu leikmynd í Kassanum.
Mugison er spenntur fyrir vertíiðinni en hann er komið með eigin litlu leikmynd í Kassanum. Vísir/Stefán
Vestfirski tónlistarmaðurinn Örn Elías Guðmundsson sem er af flestum þekktur sem Mugi­son heldur á vertíð til Reykjavíkur í sumar. Hann fer þó ekki til fiskveiða heldur efnir til tónleikasyrpu í höfuðborginni en hann segir hugmyndina runna undan rifjum systur sinnar. „Hún er búin að vinna lengi í túristabransanum og ég var að væla yfir hvað þetta væri mikil togstreita að vilja að vera að spila alla daga og fara til útlanda og vera frá fjölskyldunni. Þannig að hún sagði við mig: Af hverju spilar þú ekki bara í Reykjavík? Það er allt að fyllast af túristum hérna, spilaðu fyrir þá sem eru að koma hingað og slepptu því að vera að fara út.“

Mugison tók systur sína á orðinu og mun spila í Kassanum í sumar. „Mér finnst alltaf skemmtilegast að spila í leikhússölum. Þá er fólk ekki að drekka eða spjalla mikið. Þá datt mér í hug Kassinn og hafði samband við Þjóðleikhúsið og þau voru til í að dansa með mér,“ útskýrir hann hress og auðheyrt er að hann er spenntur fyrir komandi vikum. Fyrstu tónleikarnir fara fram næsta föstudag en hann er búinn að hlaða í tvö rennsli til þess að vera við öllu búinn og hélt niður í miðbæ til þess að reyna að næla í áhugasama áheyrendur. „Ég lét gera bækling fyrir mig og fór upp á Laugaveg og ætlaði að hössla nokkra túrista inn. Ég fór upp að fólki og sagði þeim að ég væri tónlistarmaður, það var svo fyndið því þetta fólk vissi náttúrulega ekkert hver ég er og það var eiginlega meira hrætt við mig heldur en nokkuð annað, svona eins og ég væri að reyna að hafa eitthvað af því,“ segir hann og skellir upp úr.

Hann náði þó að telja nokkra áheyrendur á að koma og hlýða á efniskrána en hana fyllir bæði gamalt efni og nýtt. Síðasta plata tónlistarmannsins, Haglél, kom út árið 2011 og vakti mikla lukku. Mugison er langt kominn með nýja plötu en ekki er alveg víst hvenær hún lítur dagsins ljós.

„Maður veit aldrei með þessar plötur, þær eru svo skapandi. Maður getur fílað eitthvað einn daginn og svo er það ógeðslegt daginn eftir. Ég er alltaf að lenda í því einhvern veginn,“ segir hann og segir að bæði megi heyra kveða við kunnuglegan tón í nýja efninu en einnig aðra tóna sem séu ekki eins kunnuglegir. „Mér finnst ég vera kominn með mínar eigin klisjur á köflum sem ég veit ekki hvort er gott eða vont.“

Áhugasamir gætu þó mögulega heyrt eitthvað af nýja efninu á fyrrnefndum tónleikum og miða á þá má nálgast á Mugison.is en athygli er vakin á því að efnisskráin er á ensku. „Ég tók alveg fjögur eða fimm ný lög í þessum prufum um daginn. Það er gaman svona meðan maður er enn að vinna í þeim. Þá finnur maður betur fyrir veikleikunum í lögunum og maður hugsar: Fyrirgefið, ég verð að laga þetta. Ég er ekki alveg búinn með þetta lag,“ segir hann hlæjandi að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×